Bandarískt skemmtiferðaskip sniðgekk nýsettar reglur

Bandarískt skemmtiferðaskip, Clipper Adventurer, setti í gærmorgun farþega í land í eyjunni Vigur í Ísafjarðardjúpi, og virti þar með að vettugi nýjar alþjóðlegar reglur um siglingavernd, að sögn Guðmundar M. Kristjánssonar, yfirmanns hafna Ísafjarðarbæjar. Reglurnar gengu í gildi 1. júlí sl. og er m.a. ætlað að afstýra hættu af hryðjuverkum og ógn gegn siglingum og hafnarstarfsemi.

Guðmundur segir höfnina í Vigur ekki eina þeirra hafna sem hlotið hafi vottun skv. alþjóðlegu siglingaverndinni, en 26 íslenskar hafnir hafa hlotið slíka vottun. Þar með getur skipstjóri bandaríska skemmtiferðaskipsins lent í vandræðum í næstu höfn, sem hlotið hefur vottun, þegar í ljós kemur að skipið hafi komið við í Vigur.

"Skipstjórinn mátti að sjálfsögðu setja farþegana út í Vigur upp á sína eigin ábyrgð, en þegar hann kemur í næstu höfn, sem hefur vottun, getur hann verið í slæmum málum," útskýrir Guðmundur. Til dæmis gætu hafnaryfirvöld þar heimilað sprengjuleit og fleira í skipinu, þar sem öryggisreglum hafi ekki verið sinnt í fyrri höfn.

Guðmundur minnir á að Bandaríkjamenn hafi átt frumkvæði að því að settar yrðu alþjóðlegar reglur í siglingavernd og segir. "Þetta eru lög sem Bandaríkjamenn eru búnir að klína upp á alþjóðasamfélagið, en þeir eru fyrstir til að sniðganga þau."

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert