Íslendingar fá 70 milljónir í styrk úr menningaráætlun ESB

Íslendingar taka þátt í þremur verkefnum sem fengu úthlutað alls um 76.000 evrum, sem svarar til ríflega 70 milljóna króna, í styrk úr menningaráætlun Evrópusambandsins, Menningu 2000. Verkefnin þrjú eru á vegum Borgarbyggðar, Eddu miðlunar, og Fornleifastofnunar Íslands, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá menntamálaráðuneytinu.

„Borgarbyggð er í forsvari fyrir sagnfræðilegt rannsóknarverkefni Sögur og samfélög sem hlýtur 85.871 evru í styrk, sem jafngildir u.þ.b 8 millj. kr. Verkefnið fjallar um sagnaritun og sagnagerð fyrri tíma og hvernig umhverfið mótaði og var mótað af sagnagerð, jafnvel öldum saman," segir í fréttatilkynningunni. „Markmið verkefnisins er að ná saman fræðimönnum margra landa til þess að fá dýpri skilning á samspili sagnanna og samfélaganna sem þær skópu og varðveittu," segir í tilkynningunni. Hápunktur verkefnisins er alþjóðleg ráðstefna sem verður haldin í Borgarnesi 8.-12. ágúst n.k. Samhliða ráðstefnunni verða settar upp sýningar og menningarviðburðir tengdir Egilssögu, vefsíða verkefnisins verður sett upp og gefið út ráðstefnurit. Samstarfsaðilar eru frá Þýskalandi og Eistlandi og ennfremur taka þátt í verkefninu Safnahús Borgarfjarðar, Snorrastofa í Reykholti og Reykjavíkurakademían. Edda miðlun og útgáfa fékk stærsta þýðingarstyrkinnEdda miðlun og útgáfa fékk stærsta þýðingarstyrkinn sem menningaráætlun Evrópusambandsins úthlutaði að þessu sinni, 75.139 evrur, sem jafngilda um 7 milljónum króna, að því er segir í tilkynningunni. Styrkurinn er veittur til að þýða tíu evrópskar bækur yfir á íslensku. „Fornleifastofnun Íslands tekur þátt í stóru samstarfsverkefni ARENA sem hlaut 598.730 evrur í styrk eða um 56 millj. kr. ARENA stendur fyrir Archaeological Records of Europe-Network Access og felst verkefnið í því að þróa aðferðir til að varðveita upplýsingar um evrópskar fornminjar á tölvutæku formi og gera þær aðgengilegar. Þannig verður hægt að öðlast nokkuð heildstæða mynd af því efni sem leitast er við að fá upplýsingar um og sjá hvernig hinir ýmsu þættir tengjast innan evrópsks menningarsamfélags. Samstarfsaðilar koma frá Danmörku, Noregi, Póllandi, Rúmeníu og Bretlandi," segir í tilkynningunni. Þá fengu nokkrar evrópskar bókaútgáfur styrki til að þýða íslenskar bækur. Ítalska bókaútgáfan Iberborea fékk styrk til að þýða Grámosinn glóir eftir Thor Vilhjálmsson, J.M. Meulenhoff í Hollandi hlaut styrk til að þýða 101 Reykjavík eftir Hallgrím Helgason, finnska bókaútgáfan Oy Like Kustannus Ltd fékk styrk til að þýða Þögnin eftir Vigdísi Grímsdóttur og Borgens Forlag í Danmörku hlaut styrk til að þýða ljóð eftir Jón úr Vör. „Menningu 2000 er ætlað að efla menningarsamskipti Evrópubúa og kynna evrópska menningu. Þátttökulönd eru alls tuttugu og sjö. Áætlunin nær til hvers konar menningararfleifðar, bókmennta og annarra listgreina. Veittur er stuðningur til samstarfshópa, rannsókna, starfsþjálfunar, nýsköpunar, sýninga, hátíða, ráðstefna, þýðinga o.fl. Meðal skilyrða fyrir umsókn er að a.m.k. þrjú lönd, sem eiga aðild að menningaráætluninni, séu þátttakendur. Umsóknir um þýðingarstyrki eru undanþegnar þessu skilyrði," segir í tilkynningunni. „Við styrkveitingar á yfirstandandi ári verður lögð áhersla á sjónrænar listir, árið 2003 verður lögð áhersla á verkefni á sviði tónlistar, dans og leiklistar. Árið 2004 verður tileinkað menningararfi. Þó verður hægt að sækja um styrk til verkefna á öðrum sviðum bæði árin," segir að lokum í fréttatilkynningunni.Menntamálaráðuneytið
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert