Ökumaður á stolnum bíl ók niður lögreglumann á reiðhjóli

Ökumaður á stolnum bíl ók á lögreglumann á reiðhjóli í Bankastræti í Reykjavík um klukkan þrjú í dag. Lögreglumaðurinn slasaðist á fæti, en ekki alvarlega. Lögreglumenn á bíl höfðu áður veitt manninum á stolna bílnum eftirför þar sem hann ók um Ingólfsstræti á móti einstefnu. Bílnum var stolið í morgun og er ökumaðurinn einnig grunaður um ölvun við akstur.

Að sögn lögreglunnar í Reykjavík var mesta mildi að ekki fór verr. Ökumaðurinn missti stjórn á bifreiðinni þegar hann ætlaði að aka inn í Bankastræti og fór bíllinn upp á gangstétt og á lögreglumann sem var á reiðhjóli. Ökumaðurinn stökk út úr bílnum og hljóp á brott, en var hlaupinn uppi af lögreglumönnum og handtekinn. Hann gistir nú fangageymslur lögreglunnar og verður yfirheyrður síðar í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert