ABBA-dísirnar með tónleika á Egilsstöðum

ABBA-dísirnar á æfingu í Valaskjálf.
ABBA-dísirnar á æfingu í Valaskjálf. mbl.is/Ólafía Herborg

Átta ungar stúlkur, sem kalla sig ABBA-dísirnar, munu koma fram í Valaskjálf á Egilsstöðum og munu þær syngja þar þekkt lög í anda 7. áratugarins. ABBA-dísirnar eru á aldrinum 16-20 ára og voru því ekki fæddar þegar tónlistin sem þær syngja var samin. Sönghópurinn var stofnaður fyrir tæpum þremur árum og hefur komið fram víða síðan.

Stúlkurnar heita Aðalbjörg Sigurðardóttir, Aldís Fjóla Ásgeirsdóttir, Berglind Ósk Guðgeirsdóttir, Margrét Dögg Guðgeirsdóttir, Hjördís Marta Óskarsdóttir, Katrín Huld Káradóttir, Margrét Freyja Viðarsdóttir og Sigurlaug Jónsdóttir en skipuleggjandi er Ármann Einarsson tónlistakennari í Fellaskóla.

Upphaflegu dísirnar eru grunnur þessa hóps en nýlega bættust í hópinn þær Aldís Fjóla og Berglind Ósk.

Upphafið má rekja til tónlistartíma hjá Ármanni þegar lítil snót bað um að fá að syngja lagið Mamma mia og við það vaknaði hugmyndin að tileinka ABBA-hópnum sýningu vorið 2000. Þá lögðu 8 stúlkur á aldrinum 13–16 ára nótt við dag í gera tónleikana að veruleika sem vöktu mikla athygli og þóttu mjög vel heppnaðir.

Í kjölfarið bauðst hópnum að fara sem fulltrúi ÚÍA á fjölmennt norrænt ungmennamót í Reykjavík sem ber nafnið Kultur og ungdom. Á þessu ungmennamóti komu þær fram á ýmsum stöðum, þ.á m. Broadway, í Laugardalnum og Laugardalshöllinni ásamt ýmsum þekktum hljómsveitum, svo sem Rottweilerhundunum, Maus og Botnleðju.

Eftir þetta mót hætti Margrét Gunnarsdóttir og Hjördís Marta tók sér frí til að fara í málaskóla til Englands. Þeim bauðst fljótlega eftir heimkomuna að taka þátt fyrir hönd Íslands í ungmennamóti í Danmörku um sumarið 2001 á vegum UMFÍ. Þetta fannst þeim of gott tækifæri til að sleppa því svo að þær hófust strax handa að safna sér fyrir þessu ferðalagi. Þá bættust í hópinn þær Elsa Guðný Eiríksdóttir og Margrét Dögg Guðgeirsdóttir frá Norður-Héraði.

Þær segast hafa gert allt mögulegt til fjáröflunar, þar á meðal að syngja á hinum ýmsu árshátíðum, og eins héldu þær söngmaraþon fyrir utan Kaupfélag Héraðsbúa og söfnuðu áheitum. Þær segjast einnig hafa notið mikillar góðvildar hjá fyrirtækum á Héraði og í Reykjavík sem hafi styrkt þær á einn eða annan máta.

Mótið fór fram í Fuglsø Center í Danmörku. Þetta mót var minna í sniðum en mótið í Reykjavík og var mikið lagt upp úr því að ungmennin kynntust hvert öðru og einnig landi og þjóð hvers annars. Stúlkurnar tóku lagið á morgunverðarfundi og svokölluðu menningarkvöldi við góðar undirtektir.

Enn og aftur héldu ABBA-dísirnar að nú væri ævintýrinu lokið en svo reyndist ekki vera. Þær Valdís Vaka Kristjánsdóttir og Linda Hrönn Geirsdóttir ákváðu að hætta eftir þessa ferð svo þær voru einungs 6 sem þáðu boð um að fara á ungmennamót til Svíþjóðar árið 2002 og þar unnu þær skemmtiatriðakeppni með sínu ABBA-prógrammi með glæsibrag.

Stúlkurnar eru búnar að æfa mikið og munu leggja sig allar sem ein fram við að þetta takist sem best. Signý Ormarsdóttir hefur hannað sérstakan búning á stúlkurnar og verða flutt 25 valin lög á tónleikunum.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þessi dagur er betri en flestir þar sem þú hefur gleymt gömlum byrðum. Gakktu úr skugga um að þú misskiljir ekki neitt áður en þú skuldbindur þig til einhvers.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þessi dagur er betri en flestir þar sem þú hefur gleymt gömlum byrðum. Gakktu úr skugga um að þú misskiljir ekki neitt áður en þú skuldbindur þig til einhvers.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant