Sjúkrareiðhjól í stað sjúkrabíla í London

Sjúkraflutningamaður á reiðhjóli í miðborg London. Sex sjúkraflutningamenn notast við …
Sjúkraflutningamaður á reiðhjóli í miðborg London. Sex sjúkraflutningamenn notast við hjólin, sem eru með bláum ljósum, sírenum og geymsluhólfi fyrir nauðsynleg tæki. AP

Floti nýrra „sjúkrareiðhjóla" var formlega tekinn í notkun í miðborg London í dag en sjúkraflutningamenn vonast til þess að reiðhjólin hjálpi þeim að sigrast á umferðarteppum, sem eru mikil plága í miðborginni. Sex sjúkraflutningamenn notast við hjólin, sem eru með bláum ljósum, sírenum og geymsluhólfi fyrir nauðsynleg tæki.

Tilraun sem gerð var með sjúkrareiðhjólin við Trafalgar-torg, í Soho og Covent Garden leiddi í ljós að reiðhjólin voru í 88% tilfella komin á staðinn á undan sjúkrabílum. Tom Lynch, fyrrum breskur og evrópskur BMX-meistari, á heiðurinn að hugmyndinni og sér ennfremur um skipulag hjóladeildarinnar. „Sambland mikillar umferðar og fjölda fótgangandi í þessum hluta London getur gert sjúkrabílum erfitt fyrir að komast til sjúklinga. Reiðhjól eru kjörin til að komast framhjá hægri umferð eða umferðarteppum svo hægt sé að veita sjúklingum læknishjálp áður en sjúkrabíllinn kemur á staðinn," sagði Lynch, sem ennfremur er lærður sjúkraflutningamaður.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert