Ferdinand mætti ekki í lyfjapróf

Rio Ferdinand.
Rio Ferdinand. AP

Enski knattspyrnumaðurinn Rio Ferdinand er sagður hafa verið settur út úr enska landsliðinu, sem leikur mikilvægan leik við Tyrki í undankeppni Evrópumótsins í knattspyrnu á laugardag. Ástæðan er sú, að sögn BBC, að hann hafi ekki mætt í lyfjapróf sem allir enskir landsliðsmenn þurfa að fara í.

Haft er eftir Gordon Taylor, framkvæmdastjóra Sambands enskra atvinnuknattspyrnumanna, að verið sé að rannsaka hvers vegna Ferdinand mætti ekki í lyfjaprófið. Taylor gagnrýnir þá ákvörðun enska knattspyrnusambandsins að víkja Ferdinand úr landsliðshópnum áður en rannsókn á málum hans sé lokið.

Þetta mál er talið vera ástæða þess að Sven-Göran Eriksson, landsliðsþjálfari Englendinga, hefur ekki tilkynnt um landsliðshóp sinn fyrir Tyrkjaleikinn. Búist er við að tilkynning um hópinn verði gefin út í hádeginu í dag. Verði Ferdinand ekki í liðinu er talið að John Terry, leikmaður Chelsea, komi í hans stað í ensku vörnina.

BBC segir að svo virðist sem Ferdinand, sem er 24 ára gamall, hafi gleymt lyfjaprófinu þann 23. september vegna þess að hann var að flytja. Manchester United, lið Ferdinands, sagði í yfirlýsingu, að Ferdinand hefði gengist undir lyfjapróf rúmum sólarhring síðar og staðist það. En fjarvera Ferdinands jafngildir samt tæknilegu broti á lyfjareglum, sem Alþjóða knattspyrnusambandið og Knattspyrnusamband Evrópu hafa sett og getur varðað allt að 2 ára keppnisbanni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert