Schumacher vinnur fimmta mótið í röð og sinn 75. sigur

Jarno Trulli á Renault í forystu í fyrstu beygju Spánarkappakstursins.
Jarno Trulli á Renault í forystu í fyrstu beygju Spánarkappakstursins. ap

Michael Schumacher á Ferrari varð fyrstur í Formúlu-1 kappakstrinum á Spáni, félagi hans Rubens Barichello annar, og Jarno Trulli, Renault, þriðji. Spánverjinn Fernando Alonso á Renault varð fjórði á heimavelli. Er þetta fimmti sigur Schumachers á vertíðinni að fimm viðureignum afstöðnum og hans 75 á ferlinum sem spannar 200 mót.

Trulli tók einstaklega vel af stað og komst úr fjórða sæti í það fyrsta þegar komið var að fyrstu beygju. Átti Schumacher aldrei möguleika á að komast fram úr en vann sig hins vegar upp í fyrsta sætið í fyrsta þjónustustoppi, eftir 10 hringi af 66.

Heimsmeistaranum var ekki ógnað eftir það og sigldi hann til enn eins auðvelds sigursins. Með vel útfærðri keppnisáætlun vann félagi hans Barrichello sig hins vegar smám saman úr fimmta sæti í það annað.

Trulli mátti sætta sig við að gefa annað sætið líka eftir og á lokahringjunum var nokkur spenna yfir því hvort hann yrði að eftirláta liðsfélaga sínum Fernando Alonso þriðja sætið. Heimamaðurinn sótti stíft á Ítalann á síðustu aksturslotunni en gerði þó ekki tilraun til að komast fram úr.

Kröftugur akstur engu að síður hjá Alonso sem hóf keppni í áttunda sæti og vann sig fram úr þremur þeirra sem voru framar á rásmarkinu; Sato, Ralf Schumacher á Williams og Marg Webber á Jagúar.

Schumacher jafnar met Mansells

Schumacher jafnaði met breska ökuþórsins Nigels Mansell hjá Williams sem árið 1992 vann fimm fyrstu mót vertíðinnar og stóð uppi sem heimsmeistari í lok hennar. Schumacher styrkir enn stöðu sína í titilbaráttunni, hefur 50 stig en Barrichello er annar með 32 og Jenson Button hjá BAR 24 en hann vann sér inn eitt stig í dag með því að klára keppnina í áttunda sæti. Mistókust tímatökurnar hjá honum í gær svo hann varð að hefja keppni í 14. sæti.

Renaultþórarnir Jarno Trulli og Fernando Alonso sýndu mikinn styrk og urðu í þriðja og fjórða sæti en fyrir vikið hafa þeir næstum dregið Button upp í keppni ökuþóra, eru báðir með 21 stig gegn 24 stigum Buttons. Og í keppni bílsmiða er Renault á nokkuð auðum sjó í öðru sæti; með 42 stig gegn 32 stigum BAR og 30 stigum Williams.

Með tvöföldum sigri í Barcelona í dag - eins og í Melbourne og Barein - hefur Ferrariliðið stungið af í stigakeppninni um heimsmeistaratitil bílsmiða; hefur hlotið 82 stig eða fleiri en Renault og BAR til samans. McLarenliðið er í aðeins fimmta sæti með 5 stig og sjötta er Sauber með 3 stig, þar af vann Giancarlo Fisichella 2 í dag, hans fyrstu á árinu. Fleiri lið hafa ekki unnið stig enn, þ.e. Toyota, Jagúar, Minardi og Jordan eiga enn eftir að komast á blað.

Úrslitin í Barcelona

Staðan í stigakeppni ökuþóra

Staðan í stigakeppni bílsmiða

Brautarstarfsmaður (t.v.) leggur til atlögu við mann sem hljóp inn …
Brautarstarfsmaður (t.v.) leggur til atlögu við mann sem hljóp inn á brautina í Barcelona er ökuþórarnir voru á upphitunarhring. ap
Jarno Trulli á Renault í forystu gegnum fyrstu beygjur Barcelonabrautarinnar.
Jarno Trulli á Renault í forystu gegnum fyrstu beygjur Barcelonabrautarinnar. ap
Jarno Trullli á Renault hélt Michael Schumacher á Ferrari auðveldlega …
Jarno Trullli á Renault hélt Michael Schumacher á Ferrari auðveldlega fyrir aftan sig fyrstu 9 hringina, eða fram að fyrsta þjónustustoppi. ap
Fernando Alonso á Renault í slag við Rubens Barrichello á …
Fernando Alonso á Renault í slag við Rubens Barrichello á Ferrari og Olivier Panis á Toyota á fyrstu hringjunum í Barcelona. ap
Michael Schumacher sigraði í Formúlu eitt kappakstrinum á Spáni. Hér …
Michael Schumacher sigraði í Formúlu eitt kappakstrinum á Spáni. Hér sést hafa fara fram úr Takuma Sato frá Japan á BAR Honda í keppninni í dag. AP
Jóhannes Karl Spánarkonungur heimsótti bílskúr Renault í morgun og heilsaði …
Jóhannes Karl Spánarkonungur heimsótti bílskúr Renault í morgun og heilsaði upp á landa sinn Fernando Alonso. ap
Spánarkappaksturinn varð ekki að rimmu milli Michaels Schumacher og Jensons …
Spánarkappaksturinn varð ekki að rimmu milli Michaels Schumacher og Jensons Button eins og fyrirfram var búist við. Hér eru þeir að morgni keppnisdags í Barcelona. ap
Michael Schumacher fagnar á verðlaunapallinum í Barcelona en hann vann …
Michael Schumacher fagnar á verðlaunapallinum í Barcelona en hann vann Spánarkappaksturinn fjórða árið í röð í dag. ap
Michael Schumacher á Ferrari veifar til áhorfenda eftir að hafa …
Michael Schumacher á Ferrari veifar til áhorfenda eftir að hafa ekið fyrstur yfir marklínuna í Barcelona. ap
Liðsmenn Ferrari fagna Michael Schumacher á mark sem sigurvegara í …
Liðsmenn Ferrari fagna Michael Schumacher á mark sem sigurvegara í Barcelona fjórða árið í röð. ap
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert