Skipulagning hernaðar bandamanna sögð léleg

Eldur í olíleiðslu við Nejmeh, milli Nasiriyah og Basra í …
Eldur í olíleiðslu við Nejmeh, milli Nasiriyah og Basra í Írak á mánudag. AP

Fyrrverandi yfirmaður herstjórnar Atlantshafsbandalagsins hefur sakað Donald Rumsfeld, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, um að stefna lífi hermanna bandamanna í óþarfa hættu með lélegri skipulagningu, að því er segir í frétt SkyNews. Wesley Clark segir að smæð innrásarhersins stofni lífi hermanna í hættu og geri olíuleiðsluna milli Kúveit og Basra berskjaldaða fyrir árásum skæruliða.

Clark sagði að hermen hafi verið bundnir í tætingslegum bardögum í nágrenni Nasiriyah og Baghdad sem hefði leitt til vandkvæða varðandi aðdrætti og stjórnun. Þá sagði hann að vonir um skjótan sigur í kjölfar byltingar írösku þjóðarinnar gegn stjórn Saddams Husseins Íraksforseta hefðu nú orðið að engu.

Fleiri hafa gagnrýnt skipulagningu hernaðarins í Írak. Ralph Peters, hernaðarfræðingur og fyrrverandi yfirmaður í hernum, ritaði í grein sem birtist í dagblaðinu Washington Post að bandamenn muni sigra þrátt fyrir alvarlegar reikningsskekkjur hjá starfsmönnum bandaríska varnarmálaráðuneytisins. Svonefndar offors- og ógnarárásir (e. shock and awe) hafi ekki skilað tilætluðum árangur með því að brjóta baráttuþrek Íraka á bak aftur heldur hafi þær þvert á móti hvatt þá til mótspyrnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert