Þjóðvegurinn um Djúp enn lokaður í Seyðisfirði

Þjóðvegurinn um Djúp er enn lokaður í Seyðisfirði. Vegurinn lokaðist um hálftíuleytið í morgun þegar flutningabifreið með aftanívagn rann til í hálku og hafnaði þversum á veginum. Aftanívagninn hafnaði utan vegar. Búið er að flytja eitt bílhlass af farminum, frosnum fiski, til Ísafjarðar. Annar flutningabíll er í Seyðisfirði þar sem unnið er að því að selflytja farminn í hann. Þegar því verki lýkur mun vörubifreið útbúin krana reyna að færa fasta flutningabifreiðina með aðstoð gröfu þannig að hægt verði að hleypa um um þjóðveginn. Að sögn varðstjóra hjá lögreglunni á Ísafirði er vonast til að hægt verði að opna þjóðveginn um kvöldmatarleytið en það sé þó alls ekki öruggt. Djúpleið hefur verið eina færa leiðin til Ísafjarðar því að ófært er um Barðaströnd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert