Greina kransæðasjúkdóma án einkenna

Miklar vonir eru bundnar við að ný tækni við greiningu hjartasjúkdóma með aðstoð tölvusneiðmynda muni auka mjög líkur á að kransæðasjúkdómar greinist í fólki sem er einkennalaust fyrir en hefur sjúkdóminn á byrjunarstigi. Þessu spáir Björn Flygenring, hjartasérfræðingur á Minneapolis Heart Institute í Bandaríkjunum, sem kynnti þessa nýju tækni auk notkunar á segulómun við greiningu hjartasjúkdóma á Læknadögum nýverið.

„Ég held að ein af afleiðingum tölvusneiðmyndatækninnar sé sú að við eigum eftir að greina miklu meira af kransæðasjúkdómum í fólki sem hefur engin einkenni, m.ö.o. við finnum fólk sem er með kransæðasjúkdóma og veit ekki af því,“ segir Björn í viðtali við sunnudagsblað Morgunblaðsins. Að mati hans mun þetta einkum gagnast fólki með ættarsögu um hjartasjúkdóma.

Með þverskurðarmynd af æðunum er hægt að mæla hvers konar efni er líklegt er að sé í hjartaveggnum og þannig komast að því hvort þrenging í kransæð sé stöðug eða hvort hún sé líkleg til að loka æðinni. „Þetta gátum við ekki gert áður,“ segir Björn sem spáir því að tölvusneiðmyndir muni í mörgum tilvikum koma í stað hjartaþræðinga við greiningu á kransæðasjúkdómum á næstu árum.

Á Læknadögum fjallaði Björn einnig um notkun segulómunar við greiningu hjartasjúkdóma.

Á Rannsóknastöð Hjartaverndar er þegar farið að rannsaka tíðni þögulla hjartadrepa með aðstoð segulómunar. Þá stendur til að kaupa eitt, jafnvel tvö segulómtæki á Landspítala – háskólajúkrahús á næstunni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert