Vill setja toppskarf á válista fuglategunda í hættu

eftir Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

TOPPSKARFI hefur fækkað mjög mikið á Breiðafirði og vill Ævar Petersen, fuglafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, að tegundin verði sett á válista.

Ævar segir að sjófuglum hafi fækkað mikið á Breiðafirði undanfarin ár, sennilega fyrst og fremst vegna þess að miklu minna sé um sandsíli í sjónum en áður en hugsanlega einnig vegna hlýnunar sjávar og breytinga á lífríki í sjónum. "Nokkrar tegundir, einna helst toppskarfur, kría, ryta og teista, hafa verulega látið á sjá á undanförnum árum," segir hann og bætir við að svo virðist sem líka sé farið að halla undan fæti fyrir lunda. Hins vegar hafi haförnum fjölgað og hrossagauksstofninn hafi aldrei verið eins stór og í sumar.

Toppskarfur á nánast hvergi heima á Íslandi nema á Breiðafirði og Ævar segir að fækkunin hafi verið geigvænleg. "Það er svo komið að það á að setja toppskarfinn á válista," segir hann.

Alþjóðlegu verndarsamtökin, IUCN, hafa sett fram skilgreiningu á því hvenær dýr teljast vera í útrýmingarhættu og er miðað við 20% fækkun eða meira á 10 ára tímabili. Á válista fyrir fugla, sem

Náttúrufræðistofnunin útbjó samkvæmt aðferðafræði IUCN fyrir hönd umhverfisráðuneytisins árið 2000, eru rúmlega 40 fuglategundir.

Í hnotskurn
» Toppskarfsstofninn var kominn upp í 8.000 til 9.000 pör fyrir átta árum en síðan hefur orðið margra tuga prósentna fækkun, að sögn Ævars Petersens.
» Toppskarfi og rytu fjölgaði á árunum 1980 til 1995 en á sama tíma fækkaði teistu.
» 1987 voru 530 teistuvarppör í Flatey á Breiðafirði en í sumar voru pörin 140.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert