ÍE: Fjöldi barna tengist skyldleika para

Íslensk kona með langömmubarn sitt í fanginu.
Íslensk kona með langömmubarn sitt í fanginu.

Vísindamenn Íslenskrar erfðagreiningar hafa sýnt fram á, að tengst eru á milli skyldleika para og fjölda barna og barnabarna sem þau eignast. Rannsóknin byggir á ættartölum sem ná yfir um 200 ár og sýnir að pör sem eru skyld í fjórða lið (þ.e. eiga sama langalangafa og ömmu)  eignast að meðaltali fleiri afkomendur en önnur pör. Þetta kemur fram í vísindatímaritinu Science Daily.

Rannsóknin sýnir að konur, sem voru fæddar á árunum 1800 til 1824, og voru þetta mikið skyldar eiginmönnum sínum eignuðust að meðaltali 4,04 börn og 9,17 barnabörn. Konur sem voru fæddar á sama tímabili og skyldar maka sínum í áttunda lið eignuðust hins vegar 3,34 börn og 7,31 barnabörn að meðaltali.

Konur sem fæddar voru á tímabilinu 1925 til 1949 og áttu maka, sem var skyldur þeim í fjórða lið, eignuðust að meðaltali 3,27 börn og 6,64 barnabörn en konur fæddar á sama tímabili sem skyldar voru maka sínum í áttunda lið eignuðust 2,45 börn og 4,86 barnabörn.

Niðurstöðurnar þykja það afgerandi að talið er víst að þær eigi sér líffræðilegar skýringar. Ekki hefur hins vegar verið greint hverjar þær skýringar kunna að vera. Rannsóknin er umfangsmesta rannsókn sem farið hefur fram á tengslum skyldleika og frjósemi en rannsóknir sem farið hafa fram annars staða í heiminum benda til sömu niðurstöðu. Þar hafa hins vegar félagslegir og efnahagslegir þættir óljós áhrif á niðurstöður.

Það eykur mikilvægi íslensku rannsóknarinnar að hún tekur til allrar þjóðarinnar og að samhljómur er í niðurstöðum á milli landshluta og ólíkra tímabila.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert