Klöguð fyrir leik á Wikipedia

Alfræðiorðabókin Wikipedia er vinsæl á netinu
Alfræðiorðabókin Wikipedia er vinsæl á netinu wikipedia.org

Aðstandendur danska sjónvarpsþáttarins Go' Morgen Danmark gætu nú átt yfir höfði sér ákæru til siðanefndar danska blaðamannafélagsins fyrir að hafa breytt upplýsingum um þáttinn á netalfræðiorðabókinni Wikipedia. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.

Öllum er heimilt að setja færslur inn á Wikipedia en umboðsmaður fyrirtækisins í Danmörku segir að með færslu sinni hafi þáttastjórnendur brotið gegn siðareglum um hlutlausa upplýsingarmiðlun.

Samkvæmt upplýsingum Nordisk Film, sem framleiðir þáttinn fyrir TV 2 var tilgangur uppátækisins ekki sá að villa um fyrir lesendum heldur að reyna að hressa aðeins upp á ímynd þáttarins.

Á meðal þess sem breytt var í færslunni var fæðingardagur þáttastjórnandans Cecilie Frøkjærs. Þá sagði þar að hún væri grænmetisæta og þekktur rauðvínssvelgur. Annar þáttastjórnandi Anders Breinholt var sagður keyra um á Berlingo og styðja fólboltalið Brøndby. Ekkert af þessu mun vera rétt.

Lykke Neiiendam, sem rannsakað hefur áreiðanleika í fjölmiðlum, segir málið varpa ljósi á það hversu óáreiðanlegar heimildir á netinu geti verið. Breinholt hefur hins vegar lýst því yfir að tilgangurinn með uppátækinu hafi ekki verið sá að kanna hvort Wikipedia Danmark kanni staðreyndir sem þar eru settar inn heldur hafi einungis verið um glens að ræða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert