Framleiðsla á eftir áætlun

Lyfjafyrirtæki sem framleiða bóluefni gegn H1N1 flensunni, svínaflensu, eru á eftir áætlun með framleiðsluna. Á Íslandi er byrjað að bólusetja við flensunni en minna hefur komið af bóluefninu til landsins heldur en til stóð í upphafi.  Í Bandaríkjunum óttast menn þær tafir sem hafa orðið á framleiðslunni en þar hefur smitum fjölgað hratt að undanförnu.

Segja bandarísk heilbrigðisyfirvöld að tafirnar valdi því að fleiri eru í hættu en annars væri. Gert var ráð fyrir því að fjörtíu milljón skammtar af bóluefni yrðu afhentir fyrir mánaðamót en svo virðist sem að þeir verði ekki nema 28-30 milljón talsins.

Lyfjafyrirtæki eins og Novartis og GlaxoSmithKline vinna hörðum höndum að því að auka framleiðsluna en þar sem sjúkdómurinn kom ekki upp fyrr en í apríl þá telja sérfræðingar eðlilegt að framleiðslan hafi ekki verið jafn hröð og æskilegt væri.

Átta þúsund nýir skammtar af bóluefni gegn svínaflensunni koma til landsins í dag. Áður voru 12.500 skammtar komnir. Með nýrri sendingu verður hægt að ljúka bólusetningu heilbrigðisstarfsfólks og öryggishópa sem svo eru nefndir. Þar er átt við lögregluþjóna, slökkvilið- og sjúkraflutningamenn, æðstu stjórn ríkisins og embættismenn á æðstu stöðum svo dæmi séu nefnd.

Fólk með ýmsa undirliggjandi sjúkdóma er í sérstakri hættu vegna svínaflensunnar. Það fólk getur haft samband við sínar heilsugæslustöðvar frá og með fimmtudeginum 22. október og pantað tíma í bólusetningu en byrjað verður að bólusetja þann hóp 2. nóvember.

Bólusetning alls almennings hefst að öllum líkindum ekki fyrr en um mánaðamótin nóvember og desember en það verður auglýst þegar nær dregur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert