Darling: Bretar vilja sýna sveigjanleika

Alistair Darling.
Alistair Darling. Reuters

Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands, sagði við breska ríkisútvarpið BBC í dag, að Bretar séu reiðubúnir að sýna sveigjanleika til að ná fram lausn í Icesave-málinu. Hann bætti við, að það muni líða mörg ár þar til Bretar fái endurgreitt það fé sem þeir lögðu fram vegna hruns Landsbankans. 

„Grundvallaratriðið í okkar huga er að fá féð til baka en við erum reiðubúnir til að sýna sveigjanleika í samningum um skilyrði og greiðsluskilmála því það þjónar ekki okkar hagsmunum að skáka Íslandi út á hliðarlínuna. Við viljum að Ísland sé hluti af meginstraumnum í Evrópu og þetta er hluti af því ferli," sagði Darling. 

Hann sagði, að Bretar muni fá fé sitt til baka á endanum. „Deilan snýst ekki um hvort upphæðin, sem við lögðum fram til að tryggja hagsmuni breskra sparifjáreigenda, verður greidd til baka eða ekki. Deilan snýst um skilmála og kjör. Við höfum raunar verið í viðræðum við íslensku ríkisstjórnina undanfarnar vikur. Við lögðum fram nýtt tilboð í síðustu viku. Þeir sögðu að þeir yrðu að bíða þar til eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna," sagði Darling.   

„Ég held að það leiki enginn vafi á að við leggjum áherslu á að fá fé okkar aftur. Ég er reiðubúinn til viðræðna um kjör og skilmála og það er hollenska ríkisstjórnin einnig." 

Darling ítrekaði að ljóst sé að líða muni mörg ár þar til féð fæst endurgreitt að fullu. „Það er ekki hægt að fara á fund smáþjóðar eins og Íslands, þar sem mannfjöldinn er álíka og borgin Wolverhamton og sega: endurgreiðið alla peningana strax," sagði hann. „Við höfum reynt að sýna sanngirni."

Darling benti einnig á, að eignir Landsbankans í Bretlandi yrðu notaðar til að endurgreiða Icesave-skuldina. 

Reutersfréttastofan segir, að svo virðist sem afstaða hollenskra stjórnvalda hafi verið að herðast að undanförnu og vísar til ummæla fjármálaráðherra Hollands í gær, sem sagði, að Hollendingar muni m.a. taka tillit til Icesave-málsins þegar þeir meta hvort fallast eigi á að bjóða Íslandi til aðildarviðræðna við Evrópusambandið. 


mbl.is