Ekki komin dagsetning á viðræður


Ekki er komin endanleg dagsetning á hvenær Icesave-viðræður íslenskra, breskra og hollenskra stjórnvalda hefjast á ný, að sögn Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra. Hann segir að það strandi helst á Bretum að ákveða nákvæma tímasetningu fundarins.

AFP fréttastofan hafði það eftir ónafngreindum heimildarmanni innan íslensku ríkisstjórnarinnar sl. föstudag að fulltrúar Íslendinga, Breta og Hollendinga muni eiga formlegan fund á næstu vikum til að ræða um nýtt samkomulag um Icesave-skuldbindingarnar.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, ræddi ekki við fréttamenn að afloknum ríkisstjórnarfundi en aðspurður um hæfi nefndarmanna í orku- og auðlindanefnd segir Steingrímur að það eigi ekki að tefja störff nefndarinnar. Hún hafi þegar fengið lengri frest til starfans.

Verkefni nefndarinnar er þríþætt. Hún mun vinna sjálfstæða úttekt á kaupum Magma Energy á eignarhlutum HS Orku og á grundvelli hennar láta í ljós álit sitt á því hvort stjórnvöld skuli grípa inn í umrædd viðskipti en niðurstöðum þess þáttar átti að skila fyrir 15. ágúst. Sá frestur hefur  verið lengdur.

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra fyrir utan stjórnarráðsbygginguna
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra fyrir utan stjórnarráðsbygginguna mbl.is/Jón Pétur
mbl.is