Varað við nýrri tölvuveiru

Þýsk stjórnvöld vöruðu tölvunotendur í dag við nýrri nettölvuveiru sem réðist á bankareikninga og greiðslukort en veiran, sem nefnd er Korgo, er mjög lík Sasser-veirunni sem olli töluverðum usla í maí. Nýtir Korgo-veiran sér öryggisveilur í Windows-stýrikerfinu. Ekki er talið að veiran hafi breiðst út víða.

Líkt og Sasser-veiran þarf Korgo ekki á tölvupóstkerfi að halda til að berast á milli tölva heldur er nóg að tölvurnar séu tengdar við Netið. Veiran leitar einkum að aðgangsorðum á heimabankareikninga og greiðslukortanúmerum. Segja þýsk stjórnvöld að þeir sem verði fyrir barðinu á veirunni ættu að skipta um aðgangsorð og láta loka greiðslukortum sínum.

Veiran hefur ráðist á ýmsar gerðir Windows-stýrikerfisins, svo sem Windows 98, Me, NT, 2000 og XP. Hefur Microsoft sent frá sér öryggisbót sem ætti að verja tölvur gegn Korgo.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert