Líkklæðið frá Tórínó sagt mun eldra en áður var talið

Hluti myndarinnar á líkklæðinu frá Tórínó.
Hluti myndarinnar á líkklæðinu frá Tórínó.

Líkklæðið frá Tórínó er mun eldra en fyrri rannsóknir hafa bent til. Þetta er niðurstaða nýrrar rannsóknar sem birt er í tímaritinu Thermochimica Acta en samkvæmt henni er líkklæðið 1300-3000 ára gamalt. Höfundur skýrslunnar vísar á bug niðurstöðum kolefnisrannsókna sem gerðar voru 1988 og bentu til þess að um væri að ræða fölsun frá miðöldum.

Á líkklæðinu sjást óljósar útlínur blóðugs manns og hafa sumir talið að um sé að ræða líkklæði Krists.

Fram kemur á fréttavef BBC, haft eftir efnafræðingnum Raymond Rogers, að rannsóknir hans bendi til þess að sýnið, sem notað var við rannsóknina árið 1988, hafi verið tekið úr bót, sem ofin var inn í klæðið og er frá miðöldum. Klæðið var bætt eftir að það skemmdist í eldi.

Rogers segir, að efnafræðirannsóknir hans sýni fram á að klæðið sé mun eldra en áður var talið. Í ljós hafi komið efnið vanillin, sem venjulega finnst í hör en dofnar með árunum, finnst ekki í stærstum hluta líkklæðisins. Það bendi til þess að klæðið sé afar gamalt eða á milli 1300 og 3000 ára. Hins vegar finnist vanillin í bótum, sem bætt hafi verið í klæðið á miðöldum.

Í rannsókninni, sem vísindamenn frá þremur háskólum gerðu árið 1988, var niðurstaðan sú að klæðið væri frá tímabilinu 1260-1390. Þar með væri ómögulegt að um væri að ræða líkklæði Krists og kardínálinn í Tórínó lýsti því í kjölfarið yfir að um væri að ræða fölsun. Ýmsar tilraunir hafa verið gerðar síðan til að hnekkja þessum niðurstöðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert