Nýjar .xxx endingar á klámsiðum gagnrýndar

Ákvörðun Icann-samtakanna (Internet Corporation for Assigned Names and Numbers), sem hafa yfirumsjón með lénum á netinu, þess efnis að allar klámsíður muni enda á .xxx hefur verið gagnrýnd töluvert síðan ákvörðunin var tekin fyrr í þessari viku, að því er kemur fram á fréttavef BBC. Meðal annars segir Karl Auerbach, fyrrum stjórnarmaður Icann-samtakanna, ákvörðunina vera „dónalega" og telur hann að samtökin ættu frekar að sinna uppbyggilegum netsíðum, en ekki klámsíðum í gróðastarfsemi.

Auerbach bendir á að margar beiðnir liggi frammi hjá Icann frá samtökum sem óska eftir sérstökum lénum, samtökum með samfélagslega uppbyggilegan tilgang. „Af hverju ættu klámsíður að fá forgang á sérstakt lén fram yfir skóla, kirkjur, verkalýðsfélög eða menningarfélög?“ spyr Auerbach meðal annars á heimasíðu sinni. Hann nefnir einnig á síðunni að erfitt gæti orðið að meta hvaða síður flokkist undir klámsíður, og hverjar ekki. Ennfremur sagði hann að 50 samtök hefðu sótt um lén hjá Icann en aðeins 7 þeirra hafi fengið lénin afgreidd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert