Óttast að loftsteinn rekist á jörðina 2036

Gríðarstór loftsteinn kann að rekast á jörðina árið 2036 og þarf þegar að fara að bregðast við hættunni, segja vísindamenn. Loftsteinninn hefur verið nefndur Apophis og mun fyrst fara framhjá jörðinni 2029. Rekist hann á jörðina gæti gígurinn eftir hann orðið á stærð við Frakkland. Eyðileggingin af völdum hans yrði þó margfalt víðtækari.

Frá þessu greinir fréttavefur Berlingske Tidende.

„Það er ekki hægt að segja til um hversu mikil hætta er á að hann rekist á jörðina. En hún er ekki engin,“ er haft eftir Claes-Ingvar Lagerkvist, dósent við Uppsalaháskóla. Þess vegna var í síðustu viku haldinn fundur geimvísindamanna og stjórnmálamanna í London þar sem rætt var um samstarf, þar sem það getur tekið áratugi að bregðast við.

Apophis uppgötvaðist í júní í fyrra og síðan hafa geimvísindamenn haft auga með honum. Hann er 390 metrar í þvermál. Reiknað hefur verið út að 2029 mun hann fara framhjá jörðinni í 23.000 kílómetra fjarlægð. Árið 2034 og 35 fer hann væntanlega hjá á 21.000 km hraða í aðeins 4.300 km fjarlægð og verður þá sjáanlegur á himninum. Árið 2036 fer hann hjá í aðeins 3.500 km fjarlægð. Eftir það mun hann væntanlega fjarlægjast jörðina aftur, samkvæmt útreikningum bandarísku geimvísindastöðvarinnar, NASA.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert