Google aðstoðar við ritskoðun í Kína

Google-fyrirtækið, sem á einkennisorðin "Ekki vera illur", hefur gert samning við kínversk stjórnvöld um að sérstök útgáfa af Google-leitarvélinni verði virkjuð þar í landi á vefslóðinni Google.cn. Mun Google sjálft ritskoða leitarniðurstöður í samræmi við óskir kínverskra stjórnvalda, en hingað til hafa kínversk stjórnvöld komið í veg fyrir að ákveðin orð séu slegin inn í Google-leitarvélina. Breytingin verður því sú að hægt verður að slá inn hvaða leitarorð sem er, en leitarvélin mun aðeins birta leitarniðurstöður sem eru kínverskum stjórnvöldum þóknanlegar.

"Til að geta starfað í Kína höfum við fjarlægt ákveðið efni úr leitarniðurstöðum á Google.cn í samræmi við þarlend lög, reglugerðir og stefnu stjórnvalda," segir í tilkynningu Google.

Skárra en ekkert

Meðal leitarorða sem munu líklega skila fáum niðurstöðum til kínverskra notenda eru "lýðræði", "Taívan", "Tíbet" og "Falun Gong", en búist er við að þúsundir vefsíðna verði fjarlægðar af leitarniðurstöðulistanum.

Í tilkynningunni segir einnig að stjórnendur Google líti svo á að þótt þessi lausn sé ekki í samræmi við stefnu Google sé hún betri en þær aðstæður sem kínverskir notendur Google hafa búið við hingað til.

Segir fyrirtækið að notendur verði upplýstir um hvenær leitarniðurstöður hafi verið ritskoðaðar og bendir á að sambærileg ritskoðun eigi sér stað á Google síðum í Frakklandi, Þýskalandi og Bandaríkjunum í samræmi við þarlend lög.

Google segir einnig að aukið aðgengi fyrirtækisins að kínverskum markaði réttlæti að vissu leyti fráhvarfið frá hugsjóninni um ótakmarkað aðgengi allra að upplýsingum.

"Stór hluti kínverska hagvaxtarins er til kominn vegna netsins og við teljum að við höfum margt jákvætt fram að færa til að styðja við þá þróun," segir í tilkynningu Google.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert