Var Júdas bjargvættur Krists?

Hluti af handriti Júdasarguðspjallsins.
Hluti af handriti Júdasarguðspjallsins. AP

Handrit sem var skrifað í Egyptalandi um 300 eftir Krist gæti umbylt hugmyndum manna um samband Júdasar og Jesú. Handritið, sem gengur undir nafninu Júdasar-guðspjallið, tilgreinir hvernig Júdas hlýðir fyrirmælum Jesú, en svíki hann ekki, þegar hann vísar yfirvöldum á lærimeistara sinn.

Ólíkt hinum fjórum guðspjöllum í Biblíunni, snýr Júdasarguðspjallið því hinum sviksama lærisveini í hlýðinn fylgisvein Jesú. Júdas er því samkvæmt handritinu sýndur sem bjargvættur mannkynsins. Lykilsetningu textans er að finna í orðum Jesú þegar hann segir við Júdas að hann „muni skara fram úr" öllum lærisveinunum ef hann hlýði honum og segi til hans.

Fræðimenn fagna þessum nýja fundi og minna á að guðspjöllin hafi áður verið fleiri, auk þess sem fjölbreytileiki trúarinnar hafi verið töluverður á tímum frumkristni.

Júdasarguðspjallið, sem er ritað á papírus, er talið vera ófalsað og afrit af eldra handriti. Það fannst í Egyptalandi um 1970 og er nú í fyrsta skiptið til sýnis hjá National Geographic Society í Washington í enskri þýðingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert