Óumflýjanlegt að hætta notkun áls í flugvélaframleiðslu

Boeing 787 Dreamliner
Boeing 787 Dreamliner Boeing

Alan Mulally, forstjóri bandaríska flugvélaframleiðandans Boeing tilkynnti í gær að til stæði að láta nýjar gerðir flugvéla leysa af hólmi vélar af gerðinni 737. Jafnframt tilkynnti Mullally að óumflýjanlegt sé að flugvélar framtíðarinnar verði smíðaðar úr samsettum kolefnum, sem séu léttari og endingarbetri en ál sem hingað til hefur verið notað í flugvélar. Þetta kemur fram á fréttavef CNN

Þar sem samsett efni sem ekki eru úr málmi eru mun léttari en ál, mun orkusparnaður aukast um a.m.k . 20%, en að auki þá verða samsettu efnin ekki fyrir málmþreytu og tærast ekki.

Segir Mulally óumflýjanlegt að flugvélar framtíðarinnar verði gerðar úr samsettum kolefnum. Boeing 787-Dreamliner sem fljótlega kemur á markað verður að miklu leyti smíðuð úr samsettum efnum.

787 vélin verður fyrst reynd á flugi um mitt næsta ár, en fyrstu vélarnar að líkum afhentar viðskiptavinum árið 2008.

Sigurður Þór Ásgeirsson fjármálastjóri Alcan á Íslandi segir að hugmyndir um að hætta að notkun áls í flugvélar sé ekki nýjar af nálinni, tvö til þrjú ár séu síðan þær heyrðust fyrst.

Áhrifin á áliðnaðinn séu hins vegar lítil þar sem flugvélaframleiðsla skýri ekki nema lítinn hluta álframleiðslu í heiminum. Álframleiðendur á Íslandi framleiða ekkert fyrir flugvélaiðnaðinn svo áhrifin á íslenskan markað yrðu hverfandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert