Tímaritið Time velur „borgara stafræna lýðveldisins“ mann ársins

Til hamingju. Þú hefur verið valin(n) „maður ársins“ af tímaritinu Time. Það eru reyndar allir „borgarar hins stafræna lýðveldis“, sem orðið hafa fyrir valinu að þessu sinni, það er að segja, allir sem nota Veraldarvefinn eða búa til efni á hann. Segir tímaritið að á árinu hafi orðið sú gerbreyting á vefnum að það séu fyrst og fremst einstaklingar, fremur en stofnanir og fyrirtæki, sem búi til efni á vefinn.

„Ef einstaklingur verður fyrir valinu þarf að útskýra með hvaða hætti hann hefur haft áhrif á líf milljóna manna,“ segir Richard Stengel, sem tók við stöðu ritstjóra Time á þessu ári. „En ef milljónir manna verða fyrir valinu þarf ekki að réttlæta eitt né neitt.“

Tímaritið nefnir 26 manns sem „skipta máli“, allt frá Kim Jong-il, einræðisherra í Norður-Kóreu, til Benedikts páfa, auk þeirra George W. Bush Bandaríkjaforseta, Dicks Cheneys varaforseta og Donalds Rumsfelds, fyrrverandi varnarmálaráðherra.

Stengel segir að ef einhver einstaklingur hefði verið valinn maður ársins hefði það líklega orðið Mahmoud Ahmadinejad, forseti Írans. „Mér fannst það bara ekki alveg viðeigandi að velja hann.“

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Time velur ekki einstakling mann ársins. Árið 1966 var það kynslóðin 25 ára og yngri, 1975 voru það bandarískar konur og 1982 var tölvan maður ársins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert