Hugbúnaðaruppfærsla frá Apple gerir aflæsta iPhone síma óvirka

iPhone
iPhone AP

Apple hefur sent frá sér hugbúnaðaruppfærslu fyrir iPhone símtækin sem gerir það að verkum að þeir símar sem hafa verið aflæstir, þannig að notendur geti valið sér hvaða farsímaþjónustu þeir vilji nota, verði óvirkir.

Fyrr í þessari viku sagði fyrirtækið að fyrirhuguð hugbúnaðaruppfærsla myndi gera það að verkum að tækin yrðu „varanlega óvirk“.

Þúsundir iPhone eigenda hafa brotið sér leið inn í tækið í því skyni að aflæsa því þannig að þeir geti notað símann hjá öðrum fyrirtækjum sem selji farsímaþjónustu. Auk þess hafa þeir getað látið símann keyra önnur forrit sem fylgja ekki símanum.

Þá hafa fréttir jafnframt borist af því að hugbúnaðarfærslan hafi valdið vandræðum hjá þeim símnotendum sem eiga síma sem ekkert hefur verið átt við.

Á mánudaginn sendi Apple frá sér yfirlýsingu þar sem sagði m.a. að óleyfileg aflæsingarforrit fyrir iPhone síma hafi valdið „óbætanlegum skaða“ á hugbúnaði tækisins.

Apple sagði að þetta muni líklega leiða til þess að breyttir iPhone símar verði varanlega óvirkir þegar næsta hugbúnaðaruppfærsla frá fyrirtækinu verði sett upp.

Nú hefur komið í ljós að þessi viðvörun á við rök að styðjast því margir iPhone eigendur hafa greint frá því að símarnir þeirra séu nú orðnir óvirkir í kjölfar hugbúnaðaruppfærslunnar.

Apple gerir þær kröfur til þeirra sem vilja eignast iPhone að þeir geri langtímasamning við AT&T símfyrirtækið í Bandaríkjunum. Það er hinsvegar hægt að finna fjölmörg forrit á netinu sem geta aflæst iPhone þannig að hægt sé að nota símtækin hjá öðrum farsímaþjónustum.

Fréttavefur BBC greindi frá þessu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert