Náði valdi yfir vefsvæði á vegum al-Qaeda-samtakanna

Bandarískur tölvusérfræðingur, sem kveðst hafa náð vefsvæði sem notað var á vegum al-Qaeda-hryðjuverkasamtakanna á sitt vald, segir að bandarísku alríkislögreglunni (FBI) hafi mistekist að notfæra sér tækifærið sem baust vegna skorts á tækniþekkingu starfsmanna. John Messner er sagður hafa boðist til þess að safna gögnum og að búa til rangar upplýsingar á vefsvæðinu alneda.com, sem hefur haldið úti upplýsingum frá al-Qaeda-samtökunum og flutt boðskap frá helstu leiðtogum þeirra. Alneda-vefsvæðið má rekja til Malasíu en stjórnendur þess hafa stýrt því frá nokkrum löndum.

Messner er sagður hafa notað forrit til þess að fylgjast með lénum sem eru til sölu, en einkum hefur hann fylgst með skráningum á vefsvæðum sem hýsa klámefni. Hann var hins vegar áhugasamur um alneda.com og notfært sér tækifærið þegar í ljós kom að lénið var til laust. Hann mun hafa fyllt vefsvæðið af vefsíðum frá upphaflegu arabíska vefsvæðinu og vonaðist til þess að hægt yrði að nota það til þess að safna upplýsingum um al-Qaeda.

Hins vegar tókst honum ekki að finna starfsmann FBI sem bjó yfir nægjanlegri þekkingu svo hægt yrði að ýta verkinu úr vör. Því hafi tækifærið runnið úr greipum þar sem notendur virðast hafa áttað sig á því að vefsvæðið átti að nota með þessum hætti. Fram að þeim tíma höfðu margir tölvunotendur frá arabalöndum skoðað vefsvæðið og vísað til þess á öðrum vefsvæðum íslamskra vígasamtaka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert