Manga Vínlandssaga í Mangaútgáfu.
Manga Vínlandssaga í Mangaútgáfu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Genji monogatari eða Sagan af Genji eftir aðalsfrúna og hirðdömuna Murasaki Shikibu er af mörgum talin fyrsta skáldsagan, en hún var gefin út á elleftu öld í Japan.

Úlfhildur Dagsdóttir

varulfur@centrum.is

Sagan segir frá ungum prinsi, Genji, sem er sonur keisarans, en þar sem móðir hans er ekki nægilega eðalborinn fær Genji ekki að verða krónprins, þrátt fyrir að vera öllum kostum gæddur, jafnt fegurð og fágun sem menntun og gáfum. Í staðinn lendir hann í linnulausum ástarævintýrum. Á tólftu öld var saga Murasaki færð í nýtt form, úr henni var unnið myndlýst handrit. Handrit þetta, sem er talið eitt það fyrsta sinnar tegundar, er í rúllu – skrollu – og þar eru það myndirnar sem skipta mestu máli, öfugt við vestræn myndlýst handrit þar sem textinn ræður og er skreyttur, þá eru japönsku myndlýstu handritin knúin áfram af myndmáli, textinn er í aukahlutverki. Handritið er gífurlega fallegt og það sem eftir er af því (rúmur þriðjungur) er varðveitt í Tokugawa-safninu í Nagoya. Þar er það til sýnis einu sinni á ári, í nóvember, því það er orðið svo viðkvæmt. Tæpu árþúsundi síðar var Sagan af Genji enn færð í nýtt form (eftir að hafa í það minnsta einu sinni verið gefin út í enn annarri myndlýstri útgáfu, með tréristum frá 1650), að þessu sinni form myndasögunnar, en árið 1993 voru gefnar út nokkrar manga-bækur um Genji og félaga hans, í meðförum Waki Yamato. Þær birtust síðan í tvítyngdri kennsluútgáfu árið 2000 sem Tale of Genji. Þannig er Sagan af Genji ákaflega gott dæmi um tengsl japanskra myndasagna, manga, við auðuga myndlistarhefð Japana.

Sagan af ekki-Genji

Það rigndi októberdaginn sem ég tók hraðlestina frá Kýótó til Nagoya. Í ferðamanna-upplýsinga-bási var afar hjálpleg kona sem gaf mér góðar leiðbeiningar um hvernig ég ætti að finna Tokugawa-safnið. Í því að ég stefni út á stoppustöð spyr konan útlending sem stóð við hliðina á mér niðursokkinn í kort hvort hún geti aðstoðað hann en hann segir af bragði: ég elti hana bara. Pilturinn reyndist vera listamaður frá Toronto, sem í augnablikinu býr í Taívan og kennir þar börnum ensku. Hann virtist fullkomlega ófær um að bjarga sér sjálfur og hengdi sig því í mig þennan dag. Á leiðinni á safnið gengum við í gegnum einn af þessum fallegu görðum Japananna, sem reyndist fullt eins njóta sín í rigningu, og eftir að hafa skoðað eftirprentanir af Genji-skrollunni og mikið magn annarra myndlýstra handrita enduðum við á írskum pöbb þar sem ég kom honum yfir á afskaplega glaðan afgreiðslumann sem hafði einu sinni verið í Toronto. Og kvaddi svo, fremur lítið uppnumin af samskiptunum, hann var sannarlega enginn Genji.

Handritin heim

Þegar þarna var komið hafði ég verið í næstum hálfan mánuð í Japan, fyrst í Tókýó en síðan í Kýótó. Markmið ferðarinnar var að kynna mér manga og myndasögumenningu Japana. Eltingarleikur minn við myndlýst handrit var einn hluti af þessum rannsóknum en samkvæmt bókum um manga er hægt að rekja rætur þessarar japönsku útgáfu myndasögunnar alveg aftur til þeirra, og jafnvel enn aftar, því margir vilja meina að ritmál Japana, myndletrið, sé í raun grunnurinn að mikilvægi þessa forms í japanskri menningu.

Ég spurði um þátt handritanna í Kýótó-háskóla, en þar tók ég viðtöl við manga-listamenn og fræðimenn í sérstakri manga-deild innan þessa listaháskóla á ystu mörkum Kýótó-borgar. Viðtölin tók ég með hjálp túlks sem ekki vissi mikið um manga og því urðu samskiptin nokkuð skrautleg. "Það er ekki komin niðurstaða í því máli, við erum enn að ræða þetta," sagði Kazuma Yoshimura grafalvarlegur, en hann er doktor í manga-andlitum, manga-höfundurinn Keiko Takemiya og safnstjórinn Tomoyuki Omote kinkuðu ákaft kolli. Þau sýndu mér kópíu af hinu fræga handriti munksins Toba, sem á japönsku nefnist Ch-j-giga og mætti útleggja á íslensku sem dýra-spé. Handritið er frá tólftu öld og þar birtast dýr að leika menn, meðal frægra uppátækja er glíma milli froska og héra. Eftirprentanir handritsins er hægt að kaupa í litlum rúllum og á söguflekum í safni helguðu verkum Osama Tezuka eru myndir úr þessu handriti fremstar í línulegri sögu manga.

Glíman við teathöfnina

Svo einn dag skellti ég mér uppí strætó og brunaði lengst út í annan útjaðar Kýótó að finna Kozan-ji musterið, en þar eru geymdar frumútgáfurnar af dýra-skrollunum. Eftir nokkurt rölt um grónar hæðir kom ég að stíg með skilti og á því var myndin fræga af glímu frosksins og hérans. Hofið sjálft var nokkru ofar, lítið en ógurlega fallegt, og þar gat ég skoðað eina skrolluna í glerbúri. Alveg heilluð af þessu fallega umhverfi og leikjum dýranna dreif ég mig í afgreiðsluna og keypti mér skrollu-kópíur. Afgreiðslufólkið var svo ánægt með þessi miklu innkaup að mér var boðið te! Það er að segja te-seremoníu te, með tilheyrandi hneigingum og hnjásetum. Og nú voru góð ráð rándýr. Mér leið óneitanlega eins og froski að leika Japana.

Manga er pólitískt

Eins og Yoshimura benti á eru ekki allir á eitt sáttir um hversu mikið er hægt að tengja manga við listræna fortíð Japana. Chigusa Ogino, sem stýrir Tuttle-Mori-umboðinu, sem sér um sölu manga erlendis, brosti svolítið út í annað þegar ég spurði um myndlýstu skrollurnar. Líkt og þau í Kýótó-háskóla átti hún dýraskrollu sem hún sýndi mér. Svo sagði hún að það mætti, með nokkurri einföldun, skipta viðhorfum til manga í tvennt, pólitískt séð. Annarsvegar væri þjóðernissinnaður vængur sem vildi endilega tengja myndasögur við fortíðina, myndlýstu handritin og önnur myndverk sem fylgdu á eftir þeim, eins og til dæmis Ukyo-e, hinar svokölluðu fljótandi prentmyndir. Hinsvegar væri fremur vinstri sinnað lið sem hafnaði þessari fortíðarhyggju og legði í staðinn áherslu á áhrif Disney-teiknimynda á frumkvöðul myndasögunnar í Japan, fyrrnefndan Osamu Tezuka. Hún lifnaði hinsvegar við þegar ég spurði um tengslin við myndletrið og gaf mér stutta kennslustund í japönskum táknum, algerlega á þeirri línu að myndletrið væri mikilvægur grunnur fyrir þróun hins sérstæða stíls japanskra myndasagna og menningarlegs mikilvægs þeirra innan Japan.

Anime-snillingur verður til

Kazuma Yoshimura vildi skipta manga uppí tvo meginstrauma, frásagnar-manga og skopmynda-manga. Og sagði að Tezuka væri frumkvöðull frásagnarformsins. Vissulega umbylti Tezuka forminu á sínum tíma – hann byrjaði feril sinn sem manga-höfundur seint á fimmta áratugnum – og notaði það til að skrifa langar sögur, fyrst aðallega ætlaðar börnum og unglingum eins og til dæmis Astró-strákurinn , en síðar meir þróaði hann sögur fyrir fullorðna, eins og Búdda . Tezuka fæddist í litlum bæ nærri Osaka, Takarazuka, sem er í dag aðallega frægur fyrir kvennaleikhús þar sem konur leika öll karlhlutverk (umskipti á hefðbundnu japönsku leikhúsi þar sem karlar leika kvenhlutverk). Í bænum er safn helgað Tezuka og verkum hans og þangað lagði ég leið mína, hinn rigningardaginn í þessari þriggja vikna haustferð minni til Japan.

Safnið er einstaklega vel heppnað, bæði fallega hannað (sem kom ekki á óvart) og stútfullt af skemmtilegu dóti og góðum upplýsingum. Eftir að hafa lesið mér til um þróun stíls Tezuka (allt á japönsku, en myndirnar töluðu sínu máli) og horft á teiknimyndir eftir hann rambaði ég niður í kjallara. Þar tekur á móti mér ein af þessum afskaplega hjálplegu stúlkum og býður mér að gera teiknimynd – anime. Og áður en ég vissi var hún búin að koma mér fyrir við borð og sýnir mér aðskiljanlega möguleika við teiknimyndagerð, kemur með leiðbeiningar á ensku og allt. Skelkuð yfir þessari yfirþyrmandi aðstoð ýti ég á einhvern takka og stúlkan kemur hlaupandi með tvö blöð sem hún festir á skapalón og skipar mér að teikna mynd og svo aðra aðeins öðruvísi ofaní. Þrátt fyrir afar takmarkaða teiknihæfileika lét ég mig hafa þetta og teikna borgarútlínur, ákveð svo að slamma Godzillu með. Það var mikið hlegið þegar stúlkan fer með þetta til annarrar og eftir smá tíma kemur hún aftur, með blöðin stimpluð með Astró-stráknum (þetta þýðir mjög gott sagði hún glöð og ég velti fyrir mér: hvað ætlir hinir fái?) og svo segir hún mér að smella á reit og þá barasta koma myndirnar mínar upp í hreyfimyndaútgáfu. Fyrst borgin og Zilla og svo hluti borgarinnar hruninn og Zilla horfin (gleymdi að teikna hana á nýjum stað). Sjálfsagt engin straumhvörf fyrir japanska teiknimyndagerð en þónokkur atburður í mínu lífi. Á leiðinni upp, enn skælbrosandi, skoðaði ég fyrrnefnda sögu-fleka með dýraglímunni sem upphafspunkti. Svo þrátt fyrir að vinstrimenn vilji rekja manga til áhrifa Disney á Tezuka þá vill Tezuka sjálfur rekja ræturnar aftur til myndlýstu handritanna.

Stelpur og strákar

Í lestinni til baka sat eldri maður við hliðina á mér, niðursokkinn í manga. Samkvæmt Chigusa Ogino eru konur þó komnar í meirihluta manga-lesenda, og nú er svo komið að hin hefðbundna tvískipting í shojo og shonen (stelpu og stráka) virðist ætla að riðlast og höfundar sem skrifa shonen-manga eru farnir að höfða meira til kvenna í teikningum sínum og hafa karlhetjurnar meira í anda shojo-drengjanna. Höfuðmunurinn á þessum tveimur gerðum manga felst bæði í stíl og sögu, en shojo-stíllinn er allur mun fegraðari og einkenni hans eru að augu persónanna, sem eru yfirleitt í stærra lagi í meginstraums-manga, eru enn stærri en annars. Shonen eru hinsvegar meiri hasar-sögur, stundum allofbeldisfullar, stundum fyndnar og krúttlegar. Það voru þó aðallega karlar sem ég sá lesa manga svona á götum úti og í lestunum. Ég var orðin mjög flink í að teygja úr hálsinum og kíkja ofaní lestrarefni fólks; Japönunum þótti þetta, sýndist mér, ekkert skrýtnara en annað sem illa siðaðir útlendingar gætu tekið uppá. Einhvers staðar hafði ég lesið að lesendur manga væru svo hraðlæsir að þeir tækju sér minna en sekúndu á hverja opnu. Þetta fannst mér allhæpið, en varð svo vitni að slíkum lestri ungs manns sem stóð gleiðfættur í neðanjarðarlestinni og hreinlega hraðfletti sig á örfáum mínútum í gegnum hnausþykkt manga-tímarit (aðeins minna en símaskráin), algerlega niðursokkinn. Stelpurnar sem ég spurði um þetta hlógu. Það hefur verið stráka-manga sögðu þær með nokkurri fyrirlitningu í röddinni, þar er ekkert nema hasar öfugt við stelpu-mangað, þar sem sagan skiptir máli.

Manga-útrásin

Þær konur sem ég talaði við voru mismikið inní manga. Ein sagðist hafa lesið mikið þegar hún var yngri, önnur, á sama aldri, les enn manga. Eldri kona, prófessor við háskóla og sérfræðingur í Edo-tímabilinu, hafði aldrei lesið manga. Chigusa Ogino benti á að vegur manga innan Japan hefur vaxið mjög mikið, sérstaklega með tilkomu vinsældanna erlendis: nú vilja öll sendiráðin hafa upplýsingar um manga inná heimasíðunum sínum sagði hún hlæjandi. Starf hennar sem umboðsmaður manga á erlendri grundu er þó ekki komið til vegna áhuga innanlands, japanskar útgáfur þurfa ekki á fleiri lesendum að halda en þær hafa heima. (Né hafa Japanir áhuga á innfluttum sögum, Súperman-sagan sem var gefin út í tengslum við kvikmyndina seldist í 3.000 eintökum!) Áhuginn kom að utan og Chigusa lýsti því fjálglega hvernig allt í einu fóru að streyma símskeyti á erlendum málum sem enginn vissi hvað átti að gera við. Útgefendur söfnuðu þessum pappírum saman og fóru með til Tuttle-Mori-umboðsskrifstofunnar sem tók að sér að sjá um söluna. Það voru semsagt aðdáendur og lesendur sem urðu til þess að manga er nú gefið út í þýðingum víða um heim. Og stór hluti þessara aðdáenda er konur sem eru nú orðnar virkur lesendahópur myndasagna á ný. Væntanlega verður það til þess að fleiri konur fara einnig að búa til myndasögur, en kvenhöfundar eru mun algengari í Japan en á Vesturlöndum.

Vinland Saga

Það er ljóst að manga hefur ekki alltaf þótt fínt. Þó hefur það verið mjög sýnilegur hluti af japanskri menningu síðan á sjötta áratugnum. Allar sjoppur eru fullar af manga, aðallega tímaritunum (sem eru hnausþykkir doðrantar), og á öllum stærri lestarpöllum eru sjoppur sem líka selja manga. Í bókabúðum er allt uppundir helmingur rýmisins lagður undir manga. (Í einni slíkri fann ég nýja manga-seríu sem nefnist Vinland Saga (manga-titlar eru oft á ensku), Guðríður, Snorri og víkingarnir í mangastíl! Æði.) Það eru til sérstök manga-kaffihús, en þau eru yfirleitt einnig netkaffi. Gamla tækja-markaðar-hverfið, Akihabara, er í dag orðið að helsta mekka manga (og anime) pílagríma, þó aðallega þeirra sem aðhyllast erótík (eða bara klám), en meirihluti þeirra manga-búða og kaffihúsa sem ég rambaði inní sérhæfðu sig í slíku (og innkoma mín olli miklum vandræðagangi). Í Akihabara er að finna nýja Anime-miðstöð, en hún á að vera upplýsingamiðstöð fyrir anime og manga. Enn sem komið er var þarna bara búð, full af skemmtilegu dóti vissulega, en ekki sérlega upplýsingavæn að öðru leyti. Það sama mátti reyndar segja um sérstakt Tezuka-safn á aðallestarstöðinni í Kýótó, en það reyndist samanstanda af búð og bíói. Hinsvegar hefur nú verið opnað alþjóðlegt manga-safn (eða bara myndasögusafn) í Kýótó, í tengslum við háskólann og manga-deildina, og eru vinir mínir Kazuma Yoshimura og Tomoyuki Omote aðalsprauturnar á bakvið það. Þar er nú væntanlega að finna eintak af bók Hugleiks Dagssonar, Avoid Us.

Sódóma-Tókýó

Chigusa Ogino hafði heilmikinn áhuga á Íslandi. Það var íslensk kvikmyndahátíð hérna og ég og maðurinn minn gátum bara séð eina mynd. En hún var alveg þess virði sagði hún glöð. Þetta reyndist vera Sódóma Reykjavík . Ég skal skila kveðju til leikstjórans sagði ég, hann býr í sömu götu og ég. Þetta fannst Chigusa bæði merkilegt og fyndið, enda næstum óhugsandi að slíkt gerist í því milljónasamfélagi sem Japan er. Ég er búin að segja öllum vinum mínum frá þessu sagði hún mér í tölvupósti. Því hefur verið haldið fram að þessi mikli fólksfjöldi sé ein ástæðan fyrir vinsældum manga í Japan. Í samfélagi þar sem lítið er um pláss er myndasagan kjörin til að skapa sér einskonar einkarými. Þú situr niðursokkin ofan í bókina þína og gleymir um stund öllum hinum líkömunum sem deila með þér lestinni, strætó, veitingastaðnum, vinnustaðnum, heimilinu. Auðvitað má segja það sama um venjulegar bækur en sterkt myndmál myndasögunnar býður uppá dýpri innlifun.

Handritið brennur

Edo-sérfræðingurinn, Masana Kamimura, gerði allt sem hún gat til að aðstoða mig við að feta mig eftir manga-leiðinni. Hún benti mér á sýningu á einu frægasta myndahandriti Japans í Ginza-hverfinu, en þar keppa merkjabúðir við gallerí um pláss. Idemitzu-safnið er við hliðina á risastórri verslunarmiðstöð og þar beið fólk samviskusamlega og þolinmótt í löngum röðum eftir því að skoða handritið. Allir tóku sinn tíma, með stækkunarglerjum og gleraugum, og það var greinilegt að þetta var merkisatburður. Handritið nefnist Ban Dainagon og segir sögu uppreisnartilraunar samnefnds manns. Uppreisnin hefst með því að mikilvægt hlið keisarahallarinnar er brennt og tekur sú sena yfir næstum heila skrollu. Í sérherbergi var búið að stækka upp valda hluta skrollunnar sem sýndi viðbrögð fólksins við brunanum. Þar blasti við ótrúleg fjölbreytni í stellingum, svipbrigðum og bara andlitunum yfirleitt sem fyrir mig virkuðu eins og þau gætu fullkomlega átt heima í nútíma manga.

Flestöll stráin stinga mig...

Masana, sem var vinkona mömmu, bauð mér út að borða á japönskum stað, hefðbundna japanska haustmáltíð sem samanstóð af fjölda lítilla rétta. Forrétturinn var tunglsljós-hlaup og skjaldbökulit sósa, með þessu fylgdi hrár makríll og liljublóm sem kanína, gúrka sem stautur og lax sem lauf. Þessum rétti fylgdi saga. Hlaupið er tákn mánans og þetta með kanínuna, laxinn og stautinn er saga um kanínu sem ætlaði að fanga mánann með tilteknu strái. Hér birtist shinto-hefðin, þjóðtrú Japana, en þar þýðir lítið að bara hóa í guðina, það verður að veifa í þá ákveðinni tegund af strái og fanga þá þannig. Stráið er einhverskonar hveitistrá og úr þessu hveiti eru búnar til núðlur, en réttinum fylgdi ein mjó hörð núðla, sem hafði verið dýft í fræ svo hún minnti á þetta strá. Við komumst að raun um að þannig væri þessi forréttur dæmi um manga – saga í myndum og táknum. Og svo hélt þetta söguþema áfram í gegnum alla máltíðina, síðari réttir voru ýmist bornir fram með stráinu fræga ofaná eða á disk með munstri þessara stráa.

Bambi og Búdda

En ég var auðvitað afskaplega dugleg við að leita uppi manga-tengingar, það má segja að ég hafi sett upp manga-gleraugun og því sá ég manga í hverju horni. Í lestunum sátu persónur úr manga (reyndar sá ég líka víða persónur úr bókum Haruki Murakami) og borgarlandslagið með öllum sínum "sæber"-skýjakljúfum í bland við shintó og búddaskrín og hof minnti mig jafnt á bakgrunn framtíðar- sem samtímasagna. Auglýsingar og tilkynningaplaköt voru í manga-stíl og svo auðvitað tískan, fötin og hárið. Jafnvel sögulegar minjar voru skoðaðar með manga-gleraugunum. Í Nara (fyrstu höfuðborg Japan) skoðaði ég risastóran bronsbúdda sem var upphaflega smíðaður á áttundu öld og er einmitt lýst í fimmta bindi af epískri sögu Tezuka, Fönixinn , en sú saga fjallar að hluta um sögu Japans. Karma fjallar um búddisma, list, stjórnmál og endurholdgun og þar er fjallað um það verkefni keisarans að láta gera stærstu búddastyttu í ríkinu. Tilgangurinn er ekki trúarlegur heldur pólitískur, hinum risastóra Búdda er ætlað að sameina ríkið, trúin verður yfirvarp pólitískra átaka. Í leiðinni fær lesandinn krasskúrs í endurholdgun búddismans, sem Tezuka færir í myndrænt form á sérlega fallegan og áhrifamikinn hátt, enda beinist gagnrýni Tezuka í þessari sögu ekki gegn Búdda sem slíkum, heldur notkun pólitískra afla á trúarbrögðum í eigin þágu. Og allt þetta rann í gegnum hugann þar sem ég stóð fyrir framan þessa íðilfallegu risastóru styttu, umkringda fagurlega útskornum verndarvættum í reykelsismettuðu hofinu, sem stendur í miðju risastórs garðs sem er fullur af dádýrum. Einkar viðeigandi, því Bambi með sín stóru augu er einmitt ein af fyrirmyndum Tezuka í því sem síðar varð að almennum stíl manga.

Manga-karma

Og ég er ekki ein um að heimsækja Japan með þessum gleraugum. Æ fleiri leggja leið sína til Japans eftir að hafa lesið manga. Þökk sé manga er Japan ekki lengur eins framandi og áður og manga hefur einnig verið mikilvægur miðill fyrir menningu og siði Japana. Chigusa fagnar þessu mjög og þuldi upp fyrir mig tölur um útbreiðslu manga á Vesturlöndum (á eftir ensku er mest þýtt úr japönsku í Svíþjóð, til dæmis). Manga, en orðið þýðir í raun bara myndasaga, þó á Vesturlöndum sé það notað eingöngu yfir myndasögur í japönskum stíl, er nú ekki lengur bundið við Japan. Bandaríkjamenn eru farnir að framleiða eigið manga og ungt fólk í Evrópu er einnig farið að teikna í manga-stíl. Þetta fannst Chigusu afskaplega viðeigandi, því manga-stíllinn sækir jú höfuðeinkenni sitt, stóru augun, til Vesturlanda, nánar tiltekið Disney. Og nú hafa þau áhrif farið heilan hring, því nýjar myndasögur Disney, Galdrastelpurnar, eru greinilega undir áhrifum frá manga-stílnum. Þegar ég spurði Chigusa um þetta brosti hún til mín og sagði: svo þú trúir líka á manga-karma?

Höfundur er bókmenntafræðingur