Meintur ritstuldur kannaður í lagadeild HÍ

Ritstuldur af vef hefur færst í vöxt meðal nemenda á unglingastigi sem og menntaskólanema í Bandaríkjunum. Þeir sem blaðamaður ræddi við sögðu ritstuld almennt vera blessunarlega fátíðan hér á landi. Kvörtun barst nýlega lagadeild Háskóla Íslands vegna meints ritstulds í kandídatsritgerð við deildina.

Þegar haft var samband við Pál Sigurðsson, deildarforseta lagadeildar, staðfesti hann að athugasemd vegna þessa hefði borist til sín nýverið en gat þess að dæmi um ritstuld væru sem betur fer fátíð við deildina.

"Það erindi hefur borist mér og er í eðlilegri meðferð," segir Páll. Inntur eftir því hvað átt sé við með eðlilegri meðferð segir hann það felast í því að sá maður sem kvörtunin beinist að fái athugasemdina senda og er honum þar gefinn kostur á því að skýra sitt mál. Sama er gert við umsjónarkennara hans og prófdómarann en þeir eru jafnframt beðnir um umsagnir. Aðilarnir þurfa að skila svari fyrir 5. september.

Aðspurður hver séu viðurlögin þegar svona komi upp segir hann lagadeildina ekki vera dómstól og að hún útdeili ekki refsingum. "Háskóli Íslands hefur ekkert agavald yfir mönnum sem ekki eru lengur nemendur við skólann. Eftir stendur hins vegar siðferðilega hliðin og annað í þeim dúr sem auðvitað skiptir miklu máli," segir Páll.

Hreinn Pálsson, prófstjóri Háskóla Íslands, hafði ekki fengið fregnir af umræddu máli en gat þess að þetta væri þá fyrsta dæmið um ritstuld í lokaritgerð við Háskóla Íslands.

Hann segir dæmi um ritstuldi blessunarlega fátíð við Háskóla Íslands. Á hverju ári megi þó búast við að nokkur slík mál komi upp en þau séu þó teljandi á fingrum. Reyndar sé þó ekki víst að allar kvartanir um ritstuldi berist á borð til hans, heldur séu sum málanna leyst innan viðkomandi deilda.

Verði stúdentar uppvísir að ritstuldi eða svindli á prófi er í framkvæmd beitt þrenns konar refsingum. Ætla má að Háskóli Íslands fari líkt að varðandi þetta og margir aðrir háskólar. Fyrir minniháttar yfirsjónir verður prófið eða ritgerðin ógilt og falleinkunn gefin í viðkomandi námskeiði. Sé brotið hins vegar skipulagt og framið að yfirlögðu ráði ónýtist allur námsárangur stúdentsins á því misseri sem misferlið átti sér stað, engu skiptir hvernig hann hefur staðið sig í öðrum námskeiðum. Við mjög grófum eða endurteknum brotum er þyngsta refsingin brottvísun úr skólanum, um tíma eða að fullu. Aðspurður hvort slíkri refsingu hefði verið beitt sagði Hreinn að slíkt hefði ekki gerst í sinni tíð sem prófstjóri frá 1998.

"En menn hafa horfið hér frá námi áður en til þess kom að það reyndi á það hvort þessari refsingu yrði beitt," sagði hann. Aðspurður hvort þessum aðilum hefði þá verið gert ljóst að hyrfu þeir ekki úr námi ættu þeir yfir höfði sér brottvísun, sagðist Hreinn ekki geta sagt til um það.

Hin fræðilega samvinna á að tryggja að rétt sé haft við

Hreinn segir að nokkuð annað eigi við um lokaritgerðir sem nemendur eigi að vinna í náinni samvinnu við sérstakan umsjónarkennara. Hreinn segir að hin fræðilega samvinna nemanda og kennara eigi að tryggja að rétt sé haft við. Leggi nemandi stund á ritstuld ætti umsjónarkennari að öllu eðlilegu að hnjóta um það á vinnslustigum ritgerðarinnar og benda stúdent sínum á það að þessi vinnubrögð gangi ekki. "Það er mjög alvarlegt mál fyrir kennara, svo ég tali nú ekki um fyrir stúdent, ef lokaritgerðir hafa farið í gegn með ritstuldi," segir Hreinn.

Aðspurður hvort sérstök viðurlög séu við ritstuldi í lokaritgerðum segir Hreinn að sömu reglur gildi um lokaritgerðir og aðrar ritgerðir. Meginreglan er einföld og kemur skýrt fram í 53. grein reglugerðar fyrir Háskóla Íslands: "Stúdentum er algerlega óheimilt að nýta sér hugverk annarra í ritgerðum og verkefnum, nema heimilda sé getið í samræmi við viðurkennd fræðileg vinnubrögð." Í reglugerðinni (50. gr.) er einnig fjallað um agaviðurlög og þar kemur fram að rektor getur veitt stúdent áminningu eða vikið honum úr skóla um tiltekinn tíma eða að fullu fyrir brot á lögum eða reglum háskólans.

Ritstuldur hvorki algengur né nýr af nálinni

Á heimasíðu Kennarasambands Íslands er að finna frétt sem unnin er upp úr frétt frá Associated Press þar sem segir að á árlegum fundi bandarísku menntasamtakanna (National Education Association) hafi komið í ljós að ritstuldur af vef sé að færast í vöxt meðal nemenda. Þar segir ennfremur að í nýlegri könnun á vegum Rutgers-háskóla komi fram að ríflega helmingur 4.500 nemenda á unglingastigi segist hafa afritað að hluta eða í heilu lagi ritgerðir af Netinu og um 20% menntaskólanema viðurkenna að hafa gert slíkt hið sama.

Yngvi Pétursson, rektor Menntaskólans í Reykjavík, segir að komið hafi upp dæmi um ritstuld í skólanum en þau séu sem betur fer mjög fá. Ritstuld segir hann ekkert nýjan af nálinni. Til séu nemendur sem eigni sér verk eldri nemenda eða taki efni af vefnum án þess að geta heimilda. Yngvi segir kennara reyna að fylgjast vel með. Í heimildaritgerðum verði nemendur ávallt að geta heimilda og kennarar fletti þeim upp. Inntur eftir því hvað gert sé ef ritstuldur kemst upp segir hann að nemendur fái þá bágt fyrir í mati og þar með lægri einkunn.

Sölvi Sveinsson, rektor Fjölbrautaskólans í Ármúla, tekur í sama streng og Yngvi og segir ritstuld hvorki nýjan af nálinni né algengan. Þá kveðst hann ekki verða var við neina aukningu á honum heldur hafi þetta verið eins í mörg ár. "Ég fæ kannski inn á mitt borð eitt til tvö mál á misseri. Sumpart er þetta eðlileg sjálfsbjargarviðleitni að styðjast við það sem aðrir hafa gert og sumpart er um að ræða gróft svindl þegar menn taka kannski upp ritdóm úr tímariti og skila sem ritgerð í eigin nafni," segir Sölvi.

Hann segir að ef ritstuldur komist upp séu hörðustu viðurlög að vísa viðkomandi úr tilteknum áfanga.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert