þri. 16. des. 2003 13:56
Nýr skógræktarstjóri settur vegna ráðningar framkvæmdastjóra Héraðsskóga
Magnús B. Jónsson, skólastjóri á Hvanneyri, hefur verið settur skógræktarstjóri vegna ráðningar á nýjum framkvæmdastjóra Héraðsskóga/Austurlandsskóga en einn umsækjandinn um starfið er sonur Jóns Loftssonar, skógræktarstjóra. Þá eru tveir stjórnarmanna Héraðsskóga vanhæfir í málinu vegna tengsla við umsækjendur.

Þór Þorfinnsson skógarvörður á Hallormsstað, sem er fulltrúi Skógræktarinnar í stjórn Héraðsskóga og jafnframt undirmaður Jóns Loftssonar, þarf að víkja sæti og sömuleiðis Jóhann Gísli Jóhannsson frá Félagi skógarbænda á Héraði þar sem bróðir hans sótti um starfið. Helgi Hjálmar Bragason, sem er varamaður í stjórn Héraðsskóga, tekur sæti Jóhanns Gísla en Magnús B. Jónsson, settur skógræktarstjóri, hefur sett Jón Snæbjörnsson í stjórnina í stað Þórs í þessu máli.

20 umsóknir bárust um starf framkvæmdastjóra Héraðsskóga og hafa einhverjir umsækjenda verið í viðtölum hjá stjórn Héraðsskóga undanfarið. Í henni sitja fulltrúar Skógræktar ríkisins, landbúnaðarráðuneytis, Félags skógarbænda á Héraði og Austurlandsskóga. Þar sem stjórnarmenn Héraðsskóga eru fjórir, geta atkvæði fallið á jöfnu og ræður þá vilji stjórnarformanns, sem er fulltrúi landbúnaðarráðuneytis. Reynt verður að ráða í stöðu framkvæmdastjóra Héraðsskóga fyrir áramót.

til baka