þri. 22. apr. 2014 08:32
Ólafur H. Kristjánsson þjálfari
Ólafur tekur við Nordsjælland í sumar

Danska knattspyrnufélagið Nordsjælland staðfesti fyrir stundu að Ólafur H. Kristjánsson, þjálfari Breiðabliks, tæki við sem þjálfari liðsins af Kasper Hjulmand í sumar, þegar tímabilinu í Danmörku lýkur.

„Ég er mjög spenntur fyrir FC Nordsjælland sem fótboltaliði og sem fyrirtæki. Þar hafa menn náð árangri með eigin uppbyggingu og jafnframt byggt mjög vel upp utan vallar. Ég hlakka mikið til að taka þátt í því að þróa þetta félag enn lengra, leik liðsins og leikmennina. Ég ber geysilega virðingu fyrir því sem Kasper Hjulmand hefur gert í FCN og mitt markmið er að halda áfram og þróa það starf hans áfram," segir Ólafur í fréttatilkynningu sem Nordsjælland sendi frá sér í morgun.

Fram kemur að Ólafur muni stýra liði Breiðabliks fram á sumarið en fimm umferðum er ólokið í dönsku úrvalsdeildinni og keppni þar hefst á ný eftir stutt sumarfrí um miðjan júlí.

„Ég er þjálfari sem vil fyrst og fremst vinna leiki en vil um leið spila boltanum og þróa einstaka leikmenn og liðið. Þetta vonast ég til að taka með mér til Nordsjælland, lið sem ég þekki nú þegar mjög vel. Eins og er einbeiti ég mér hinsvegar að því að ljúka störfum mínum fyrir Breiðablik eftir átta ár þar. Við spilum úrslitaleik í deildabikarnum strax á fimmtudag og ég vil einbeita mér að því verkefni," segir Ólafur.

Nordsjælland hefur aðsetur í Farum, skammt norðan Kaupmannahafnar, og er eina liðið í dönsku úrvalsdeildinni sem er með gervigras á sínum heimavelli, Farum Park. Félagið vann óvænt danska meistaratitilinn 2012 og spilaði í Meistaradeild Evrópu veturinn á eftir en þá aðstoðaði Ólafur einmitt þjálfarateymi félagsins með því að fylgjast með andstæðingum Nordsjælland í riðlakeppninni.

Nordsjælland er núna í 7. sæti af 12 liðum í dönsku úrvalsdeildinni, sextán stigum á eftir toppliði AaB og átta stigum fyrir ofan fallsæti þegar fimm umferðum er ólokið.

Rúnar Alex Rúnarsson, markvörður 21-árs landsliðs Íslands, er einn af þremur markvörðum Nordsjælland en hann kom til félagsins frá KR snemma á þessu ári.

til baka