þri. 22. apr. 2014 09:41
Ólafur H. Kristjánsson.
Höfum þekkt Ólaf lengi

Formaður danska knattspyrnufélagsins Nordsjælland, Allan K. Pedersen, segir að forráðamenn félagsins hafi lengi þekkt Ólaf H. Kristjánsson, sem mun taka við sem þjálfari liðsins í sumar af Kasper Hjulmand.

„Við höfum þekkst í langan tíma og Ólafur var í njósnarateymi okkar í tengslum við leiki okkar í Meistaradeild Evrópu árið 2012. Ólafur Kristjánsson er þjálfari sem á margan hátt stendur fyrir sömu gildum og við leggjum áherslu á hjá FC Nordsjælland. Hann hefur náð frábærum úrslitum, bæði innanlands og erlendis, hjá litlu félagi með takmörkuð fjárráð, bæði með því að þróa unga lelikmenn og með því að spila góðan sóknarfótbolta. Á þennan hátt hefur hann bæði unnið meistaratitil og bikarkeppni með sínu liði," segir Pedersen á vef Nordsjælland.

„Ólafur er mjög metnaðarfullur varðandi uppbyggingu á ungum leikmönnum og hefur átt stóran þátt í að þróa stóran hóp manna sem eru í dag í bæði A-landsliði og yngri landsliðum Íslands. Einn af mörgum sem fengu tækifærið hjá Ólafi í Breiðabliki er Alfreð Finnbogason, sem nú er markahæstur í hollensku úrvalsdeildinni.

Hann er þjálfari sem við höfum lengi fylgst með og hann henta fullkomlega fyrir okkur, og þær hugmyndir sem við höfum til að þróa leik og lelikmenn FC Nordsjælland, og ég hlakka mikið til þess að vinna með honum eftir sumarfríið," segir Pedersen.

til baka