þri. 22. apr. 2014 11:26
Árni Steinn Steinþórsson, leikmaður Hauka, sækir að FH-ingunum Magnúsi Óla Magnússyni og Ísaki Rafnssyni, í einum að leikjum Hauka og FH á keppnistímabilinu.
Heldur sigurganga Hauka áfram?

Flautað verður til leiks í úrslitakeppni úrvalsdeildar karla í handknattleik, Olís-deildinni, í kvöld, ÍBV fær Val í heimsókn í íþróttamiðstöðina í Vestmannaeyjum og FH-ingar sækja erkifjendur sína í Haukum heim í Schenkerhöllina á Ásvöllum.

Leikurinn í Eyjum hefst klukkan 19 en 45 mínútum síðar í Hafnarfirði.

Haukar, undir stjórn Patreks Jóhannessonar, urðu á dögunum deildarmeistarar, þriðja árið í röð, eftir hafa haft góða forystu í deildinni um nokkurt skeið.  Á ýmsu hefur hinsvegar gengið hjá FH-ingum sem sluppu inn úrslitakeppnina eftir góðan endasprett þar sem þeir unnu þrjá af fjórum síðustu leikjum sínum. Kristján Arason kom í þjálfarateymi liðsins á lokasprettinum og var Einari Andra Einarssyni til halds og trausts en þeir þjálfuðu liðið saman þegar það varð Íslandsmeistari fyrir þremur árum.

Haukar unnu alla þrjá leiki liðanna í deildinni í vetur, fyrst 3. október á heimavelli, 25:20, þá í Kaplakrika 28. nóvember, 31:27, og loks á heimavelli 6. mars, 31:25.  Reyndar hafa Haukar ekki tapað fyrir FH-ingum allt keppnistímabilið og eru þá taldir með leikir í bikarkeppni HSÍ, deildabikarnum og í Hafnarfjarðarmótinu. 

ÍBV, undir stjórn Arnars Péturssonar og Gunnars Magnússonar,  hafnaði í öðru sæti Olís-deildarinnar, fjórum stigum á eftir Haukum, en sex stigum á undan Val sem varði í þriðja sæti. Annað sæti færði Eyjamönnum þar með heimaleikjaréttinn. 

Valur, sem Ólafur Stefánsson þjálfar, gekk vel gegn ÍBV á keppnistímabilinu og vann tvo af þremur innbyrðisleikjum liðanna. Valur vann fyrsta leikinn á sínum heimavelli, 9. nóvember, 32:26, og aftur er liðin áttust við í Vestmannaeyjum 13. febrúar, 31:21. ÍBV svaraði hinsvegar fyrir sig með sigri á heimavelli 10. apríl sl. 31:27. 

til baka