þri. 22. apr. 2014 13:28
Frá viðureign Aftureldingar og Þróttar Nes í Mosfellsbæ á dögunum. Liðin mætast í fjórða úrslitaleiknum um Íslandsmeistaratitilinn í Neskaupstað í kvöld.
Fer bikarinn á loft í Neskaupstað?

Afturelding getur orðið Íslandsmeistari í blaki kvenna í kvöld þegar liðið mætir Þrótti Neskaupstað í fjórða úrslitaleik liðanna eystra í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 19.30. Afturelding hefur tvo vinninga í rimmu liðanna en Þróttur einn. Vinni Þróttarar leikinn í kvöld kemur til oddaleiks á milli liðanna síðar í vikunni.

Þróttarar gerðu sér lítið fyrir og unnu deildarmeistara Aftureldingar í fyrstu viðureign liðanna sem fram fór í Mosfellsbæ, 3:2, í hrinum talið. Afturelding sneri taflinu við og vann næstu viðureign sem fór fram á Norðfirði, 3:1. Þriðji leikur liðanna var í Mosfellsbæ fyrir rúmri viku og þá vann Afturelding í þremur hrinum.

Vikuhlé var gert á úrslitakeppninni vegna æfingar landsliðsins um páskahelgina. Leikmenn mæta þar með frískir til leiks í kvöld.

Annað kvöld eigast HK og Stjarnan við í fjórða sinn í úrslitum Íslandsmóts karla. Leikurinn fer fram í Ásgarði og hefst kl. 19.30. HK hefur unnið tvo leiki en Stjarnan einn, þann síðasta sem fram fór í Fagralundi fyrir viku.

til baka