þri. 22. apr. 2014 15:11
Bruyneel og Armstrong skála í kampavíni á Champs Elysees breiðgötunni í París eftir enn einn sigur Armstrongs í Tour de France.
Liðsstjóri Armstrong fær 10 ára bann

Fyrrverandi liðsstjóri hjólreiðagarpsins Lance Armstrong hefur verið dæmdur í 10 ára bann frá afskiptum af hjólreiðum vegna aðildar að lyfjanotkun Armstrong og fleiri keppenda.

Johan Bruyneel var aðalstjórnandi kappliðanna US Postal og Discovery Channel, liðanna sem Armstrong keppti fyrir er hann vann Tour de France sjö sinnum í röð. Í yfirlýsingu bandaríska lyfjaeftirlitsins (USADA) segir að hann hafi verið pottur og pannan í samsæri um að brúka lyf til að auka getu liðsmanna sinna.

Auk Bruyneel voru læknirinn Pedro Celaya og þjálfarinn Jose 'Pepe' Marti  dæmdir frá afskiptum af hjólreiðaíþróttinni í átta ár.

Armstrong neitaði staðfast öllum áburði um lyfjanotkun en hann var sviptur sigurtitlum sínum í Frakklandsreiðinni og dæmdur í lífstíðarbann árið 2012. Hann játaði loks syndir sínar í sjónvarpsþætti  Oprah Winfrey í janúar í fyrra, 2013.

 

til baka