sun. 27. júlí 2014 21:52
Guðmundur Reynir Gunnarsson og Elfar Árni Aðalsteinsson í leik KR og Breiðabliks.
KR dróst aftur úr í toppbaráttunni

KR-ingar drógust aftur úr FH, Stjörnunni og Víkingi í toppbaráttunni í Pepsi-deild karla, þegar KR og Breiðablik gerðu 1:1-jafntefli á KR-vellinum í Vesturbæ í kvöld. KR hefur nú 23 stig í 4. sæti, 8 stigum á eftir toppliði FH, en Breiðablik er í 9. sæti með 13 stig að loknum 13 umferðum.

Blikar náðu forystunni á 9. mínútu þegar Guðjón Pétur Lýðsson spilaði Árna Vilhjálmsson í gegnum vörn KR og Árni skoraði og kom Blikum í 1:0. Þannig stóðu leikar allt fram á 52. mínútu þegar Kjartan Henry Finnbogason jafnaði metin fyrir KR þegar hann skoraði af stuttu færi eftir fyrirgjöf Hauks Heiðars Haukssonar.

KR-ingar urðu manni færri á 67. mínútu þegar Stefáni Loga Magnússyni, markverði liðsins, var vísað af velli fyrir að brjóta á Elfari Árna Aðalsteinssyni rétt utan vítateigs. Fleiri mörk voru þó ekki skoruð í leiknum og niðurstaðan, 1:1-jafntefli sem gerir lítið fyrir bæði lið í stigasöfnun þeirra í deildinni.

Fylgjast má með öllum fréttum og því sem gerðist í íslenska fótboltanum í dag með því að smella á ÍSLENSKI BOLTINN Í BEINNI.

til baka