sun. 27. júlí 2014 22:21
Heimir Guðjónsson þjálfari FH.
Heimir Guðjónsson: Gott skipulag, gott vinnuframlag og þolinmæði

„Mér fannst gott skipulag og gott vinnuframlag skapa þennan sigur, við  vorum þolinmóðir,  héldum hreinu og skoruðum tvö góð mörk,“  sagði Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, eftir góðan 2:0 útisigur á Fylki í Árbænum í kvöld en það var leikinn 13. umferð efstu deildar karla í knattspyrnu.

„Varnarleikur okkar í heildina var góður og Fylkir skapaði sér ekki mikið af færum í þessum leik, bara aðeins í byrjun. Við sköpuðum góð færi þegar leið á leikinn en hefðum svo sem mátt vera nákvæmari uppi við markið,“   sagði Heimir.  

Steve Lennon er genginn til liðs við FH og þarf að standa undir væntingum.  „Við vitum að Lennon er góður leikmaður sem á eftir að nýtast FH vel enda væntum mikils af honum.  Hann kom beint inn í leikinn og stóð sig vel þó að hann hefði ekki náð neinni æfingu.“


FH berst á fleiri vígstöðvum og mun leika í 3. umferð undankeppni í Evrópudeildinni í vikunni.  „Það er alltaf gaman að spila Evrópuleiki og Elfsborg er gott lið en við þurfum að spila vel á erfiðum gras-útivelli á fimmtudaginn og ná hagstæðum úrslitum svo það verði einhver stemning í Krikanum í seinni leiknum,“    bætti Heimir við.  

til baka