þri. 26. ágú. 2014 11:45
Fyrirliðinn Hlynur Bæringsson sækir að körfu Breta í leiknum í Lundúnum á miðvikudag.
Hlynur verður til taks á morgun

Hlynur Bæringsson, fyrirliði íslenska körfuboltalandsliðsins, verður með í leiknum mikilvæga gegn Bosníumönnum í undankeppni Evrópukeppninnar í Laugardalshöllinni annað kvöld. Ekki er þó vitað hversu mikið hann getur beitt sér.

Hlynur meiddist á ökkla í leiknum gegn Bretum í síðustu viku, og sagði þá í samtali við mbl.is að hann hefði aldrei snúið sig jafn illa og vonaði að þetta væri ekkert alvarlegra. Það virðist hafa gengið eftir og hann verður því til taks á morgun, en sigur gulltryggir íslenska liðinu sæti í lokakeppni EM í fyrsta sinn í sögunni þó það sé ekki útilokað heldur með ósigri.

til baka