sun. 31. ágú. 2014 20:28
Atli Guðnason skoraði eitt mark og lagði upp tvö fyrir FH.
Ágúst: Leikur okkar hrundi

Ágúst Gylfason og strákarnir hans í Fjölni eru komnir í fallsæti Pepsi-deildarinnar eftir úrslitin í 18. umferðinni sem leikin var í dag. Fjölnismenn töpuðu fyrir FH-ingum, 4:0, í Kaplakrika í kvöld og framundan er þungur róður hjá Grafarvogsliðinu að halda sæti sínu í deildinni.

„Leikur okkar hrundi gjörsamlega á einhverjum 10-15 mínútum í seinni hálfleik og FH-ingarnir óðu bara yfir okkur. Við vorum flottir í fyrri hálfleiknum. Leikskipulagið gekk eins og við ætluðum að hafa það og voru óheppnir að komast ekki yfir. Mér fannst okkur takast að halda FH-ingunum vel niðri en fyrst við skoruðum ekki úr færum okkar í fyrri hálfleiknum fengum við að kenna á því í seinni hálfleik á móti svona góðu liði eins og FH hefur á að skipa,“ sagði Ágúst við mbl.is eftir leikinn.

„Strákarnir virtust ekki tilbúnir í seinni hálfleik. Þeir eltu ekki sína menn og hengdu haus og því fór sem fór. Við erum búnir að vera í allt sumar í kringum fallsætið en eftir úrslitin í kvöld erum við komnir í fallsæti og nú er ekkert annað að gera en að rífa sig upp úr því. Við eigum Fram í næsta leik og það er leikur sem við verðum að vinna,“ sagði Ágúst.

 

til baka