lau. 20. sept. 2014 14:02
Mercedesþórarnir Lewis Hamilton (t.v.) og Nico Rosberg takast í hendur eftir tímatökuna í Mrina Bay brautinni í Singapúr.
7/1000 úr sekúndu á undan

Lewis Hamilton hreppti ráspól kappakstursins í Singapúr með því að skjótast úr sjöunda sæti í það fyrsta á síðasta hring. Liðsfélagi hans Nico Rosberg hækkaði sig úr sjötta í annað á lokasekúndum og var aðeins sjö þúsundustu úr sekúndu á eftir.

Lokalota tímatökunnar var mjög tilþrifamikil og þegar ökumenn áttu eftir aðeins eina tímatilraun var Felipe Massa hjá Williams efstur, Kimi Räikkönen hjá Ferrari annar og Ricciardo þriðji.

Räikkönen fékk ekki tækifæri til að gera atlögu að ráspólnum því vélarbilun varð á úthring lokaatlögu hans. Hafnaði hann því í sjöunda sæti. Og eftir góða byrjun á annarri og þriðju lotu tímatökunnar fór loftið líka úr Ferrarifák Fernando Alonso sem endaði í fimmta sæti.

Ricciardo sat um tíma á ráspól enda átti hann meira af ónotuðum ofurmjúkum dekkjum fyrir hinstu tilraun. Hamilton átti sömuleiðis einn óhreyfðan dekkjagang og nýtti sér það til hins ítrasta í blálokin; hrifsaði pólinn frá Ricciardo, sem aldrei hefur hafið keppni fremstur.

Rosberg mistókst í fyrri atlögunni í lokalotunni en bætti sig mjög í hinni seinni og varð að játa sig sigraðan með aðeins sjö þúsundustu úr sekúndu, eins og fyrr segir. Allt fram að því höfðu ökumenn Mercedes átt í erfiðleikum með bíla sína og jafnvægisskort. En allt small saman þegar mestu skipti og hefja þeir keppni af fremstu rásröð á morgun. 

Red Bull félagarnir Daniel Ricciardo og Sebastian Vettel verða á annarri rásröð og Alonso og Massa á þeirri þriðju. Við hlið Räikkönen á fjórðu rásröð verður landi hans Valtteri Bottas hjá Williams.

Nýliðarnir Kevin Magnussen hjá McLaren og Daniil Kvyat hjá Toro Rosso verma síðan fimmtu rásröðina, en þeir urðu í níunda og tíunda sæti í lokalotu tímatökunnar. 

 

 

til baka