þri. 21. okt. 2014 22:26
Hjalti Friðriksson fékk 25 mínútna brottvísun eftir að hafa ráðist að Arnþóri Bjarnasyni í leiknum í kvöld.
Falur tryggði Birninum sigur í framlengingu

Björninn vann SR í framlengdum leik, 3:2, á Íslandsmóti karla í íshokkí í kvöld. Eftir leikinn er Björninn með 13 stig í 2. sæti deildarinnar, sex stigum á eftir SA. SR er með 10 stig, stigi fyrir ofan Esju.

SR-ingar sóttu talsvert meira í fyrstu lotu en þá voru Bjarnarmenn mikið í refsiboxinu. Hjalti Friðriksson fékk 25 mínútna brottvísun fyrir að sparka í andstæðing en fram að því höfðu fjórir liðsfélagar hans fengið brottvísun í lotunni. Miloslav Racansky kom SR í 1:0 í lotunni.

Nicolas Antonoff jafnaði metin í annarri lotu þegar Björninn var manni fleiri. Robbie Sigurðsson kom SR hins vegar yfir á nýjan leik eftir langa sendingu Victors Carlson.

Brynjar Bergmann jafnaði metin í 2:2 í þriðju lotu en fékk í kjölfarið tíu mínútna brottvísun. Staðan var jöfn þegar lokaflautan gall og því tók við framlenging. Hún stóð aðeins í 13 sekúndur því þá hafði Falur Birkir Guðnason tryggt Birninum aukastigið sem í boði var með gullmarki.

Mörk/stoðsendingar Björninn:
Falur Birkir Guðnason 1/1
Brynjar Bergmann 1/0
Nicolas Antonoff 1/0
Lars Foder 0/1
Bergur Árni Einarsson 0/1

Refsingar Bjarnarins: 43 mínútur

Mörk/stoðsendingar SR:
Robbie Sigurðsson 1/0
Miloslave Racansky 1/0
Victor Anderson 0/2

Refsingar SR: 8 mínútur

til baka