mið. 22. okt. 2014 07:55
Björn Daníel í leik með Viking.
Óska þess að hafa bætt mig meira

Björn Daníel Sverrisson var valinn leikmaður ársins í Pepsídeildinni á síðustu leiktíð af leikmönnum deildarinnar og það kom fáum á óvart að hann skyldi halda út á vit atvinnumennskunnar eftir tímabilið.

FH-ingurinn samdi við norska liðið Viking til þriggja ára og er að klára sitt fyrsta tímabil með liðinu, sem með má sanni segja að sé Íslendingalið því fimm Íslendingar spila með liðinu.

„Það hefur ekkert gengið hjá okkur undanfarna mánuði. Við ætluðum okkur stærri hluti en raun ber vitni. Eins og tímabilið byrjaði hjá okkur leit út fyrir að við værum að fara að berjast um Evrópusæti en ég veit ekki hvað gerðist hjá okkur. Það kom einhver lægð í liðið sem hefur varað frekar lengi og við höfum ekki náð að rífa okkur upp úr henni,“ sagði Björn Daníel í samtali við Morgunblaðið en Viking hefur aðeins unnið sjö af 27 leikjum sínum í deildinni og þar ræður mestu að liðið hefur gert 12 jafntefli.

Hvernig hefur þér líkað fyrsta árið í atvinnumennskunni?

„Þetta hefur gengið svona upp og niður hjá mér. Ég byrjaði vel eins og liðið en svo kom kafli sem ég datt niður og var settur á bekkinn í tveimur leikjum. Mér hefur tekist að rífa mig upp í síðustu leikjum og nú einbeiti ég mér bara að því að enda tímabilið vel og taka eitthvað jákvætt með mér inn í það næsta,“ segir Björn Daníel, sem hefur að mestu spilað inni á miðjunni í liði Viking. Hann hefur spilað örfáa leiki í „holunni“ en í þeirri stöðu átti hann frábært tímabil með FH í fyrra og skoraði 9 mörk í 21 leik liðsins í Pepsi-deildinni.

„Það hafa verið miklar hræringar á miðjustöðunum og ég held að þjálfarinn hafi verið með einhverjar tíu uppstillingar á miðjunni,“ segir Björn Daníel.

„Það sem ég er ánægðastur með er að mér hefur tekist að skora sex mörk í deildinni á tímabilinu og það er jákvætt,“ sagði Björn en hann er annar markahæsti leikmaður liðsins í norsku úrvalsdeildinni á keppnistímabilinu.

Sjá allt viðtalið við Björn Daníel í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

til baka