fim. 30. okt. 2014 17:31
Guðjón Þórðarson.
Guðjón fær 8,4 milljónir í bætur

Hæstiréttur staðfesti í dag niðurstöðu Héraðsdóms Reykjaness frá því í mars á þessu ári og dæmdi Guðjóni Þórðarsyni knattspyrnuþjálfara alls 8,4 milljónir króna auk dráttarvaxta fyrir ólögmæta uppsögn. Hafði Guðjón gert samning hjá Knattspyrnudeild Grindavíkur.

Í nóvember árið 2011 skrifaði Guðjón undir tímabundinn ráðningarsamning við knattspyrnufélagið og átti samningur þessi að gilda til 15. október 2014. Tímabundnir ráðningarsamningar eru almennt óuppsegjanlegir á samnings­tímanum, nema sérstaklega sé um annað samið. Einungis var veitt heimild til uppsagnar á launalið samningsins, en ekki samningum í heild.

Fram kemur í dómnum að Guðjón hafi hins vegar fengið tilboð um stórfellda lækkun launa auk niðurfellingar á öðrum umsömdum hlunnindum. Með þessu var Guðjóni í raun sagt upp samningnum og á hann því rétt á skaðabótum vegna þess.

Var knattspyrnufélaginu að auki gert að greiða Guðjóni málskostnað hans fyrir Hæstarétti sem nemur alls 900.000 krónum.

Dómur Hæstaréttar í heild.

til baka