mið. 17. des. 2014 11:58
Rolf Toft skallar boltann í leik gegn Breiðabliki.
Rolf Toft samdi við Víking

Danski framherjinn Rolf Toft, sem varð Íslandsmeistari með Stjörnunni í haust, er genginn í raðir Víkings R. og hefur samið við félagið til næstu tveggja ára.

Toft skoraði 6 mörk í 11 deildarleikjum með Stjörnunni í sumar og þar að auki gríðarlega mikilvægt sigurmark gegn Lech Poznan í Evrópudeildinni. Hann var áður leikmaður AaB og Vejle í Danmörku.

Eftir að keppnistímabilinu lauk í haust hefur Toft meðal annars verið til reynslu hjá Halmstad í Svíþjóð og Start í Noregi en nú er ljóst að hann spilar áfram á Íslandi næsta sumar.

Víkingar hafa verið duglegir á leikmannamarkaðnum í vetur eftir að hafa tryggt sér Evrópusæti á síðasta tímabili. Á meðal leikmanna sem liðið hefur fengið eru Haukur Baldvinsson úr Fram, Atli Fannar Jónsson úr ÍBV, Finnur Ólafsson úr Fylki, Andri Rúnar Bjarnason úr BÍ/Bolungarvík og Hallgrímur Mar Steingrímsson úr KA. Þá ákvað fyrirliðinn Igor Taskovic að spila áfram með liðinu.

til baka