mið. 17. des. 2014 15:12
Helena Ólafsdóttir.
Íslendingar kveikja meiri áhuga en áður

„Þeir töluðu fyrst við mig í haust en ég hélt að þetta gengi bara ekki upp, peningalega. Svo höfðu þeir aftur samband fyrir tveimur vikum og buðu mér út, og ég dreif mig af stað. Þeir sýndu mér allt og ég varð strax mjög hrifin,“ sagði Helena Ólafsdóttir, nýráðinn þjálfari norska knattspyrnuliðsins Fortuna Ålesund.

Helena samdi við félagið til tveggja ára með möguleika á framlengingu um eitt ár.

„Ég vissi ekki við hverju ég ætti að búast en aðstaðan þarna er frábær og stelpurnar eru mjög efnilegar. Efniviðurinn er til staðar og þetta leit allt mjög vel út. Ég er á flugi með þetta. Þeir gerðu allt fyrir mig sem þurfti og þá var ekki annað að gera en drífa sig,“ sagði Helena, sem eftir langan feril hér heima þjálfar nú utan Íslands í fyrsta sinn.

Minnir á Selfoss og FH

„Þetta er í fyrsta sinn sem ég get verið þjálfari í fullu starfi og það er auðvitað draumur hvers þjálfara. Þetta er gríðarlega gott tækifæri og eitthvað sem mér fannst ég verða að prófa. Maður er kominn á þann aldur og ég hef prófað margt hér heima. Vonandi er þetta gæfuskref en það er auðvitað ekkert víst,“ sagði Helena.

Lið Fortuna er í 1. deild en var í baráttu um að komast upp í úrvalsdeildina á síðustu leiktíð. Ný leiktíð hefst í apríl en Helena flytur út í janúar.

„Þær enduðu í 4. sæti á tímabilinu en voru frekar óstöðugar og áttu til að tapa gegn neðri liðunum. Þegar ég kom þarna þá minnti þetta mig svolítið á það þegar ég kom til Selfoss og FH. Það voru tímar sem ég hafði mjög gaman af, með ómótaða leikmenn. Bærinn er yndislegur og þetta er allt mjög spennandi. Það er mikill metnaður þarna, þetta er eingöngu kvennaklúbbur og það er allt gert fyrir liðið,“ sagði Helena. Hún segir það hafa verið fyrir tilstuðlan Þórs Hinrikssonar, sem tók við af Helenu sem þjálfari hjá Val í sumar, að hún sótti um í Noregi.

Beta búin að sýna að þetta er hægt

„Ég sendi bara inn umsókn upp á von og óvon í gegnum norska knattspyrnusambandið. Maður er oft svolítið hikandi en þegar maður fer yfir þessa ferilskrá þá er alveg kominn hellingur á hana. Ég var búin að ákveða að hvíla mig á meistaraflokksþjálfun og komin í að þjálfa yngri flokka hjá Stjörnunni, og er rosalega þakklát fyrir að hafa fengið að fara þaðan þar sem ég var búin að semja til eins árs,“ sagði Helena. Elísabet Gunnarsdóttir hefur síðustu ár verið eina íslenska konan sem þjálfar atvinnumannalið, en hún stýrir Kristianstad í Svíþjóð.

„Það er virkilega verið að skoða Ísland. Það fyrsta sem forráðamenn félagsins vildu ræða við mig var árangur karlalandsliðsins. Þeir eru mjög forvitnir um það hvað við séum að gera, svo að sem betur fer erum við farin að kveikja meiri áhuga en áður. Ég er að fara í fótspor Betu sem er búin að standa sig frábærlega í Svíþjóð og sýna að þetta er alveg hægt,“ sagði Helena.

til baka