þri. 31. mars 2015 22:25
Er afar stolt af árangrinum

„Ég er afar stolt af því jafnvægi sem liðið hefur sýnt í vetur og og unnið alla leikina nema tvo og gert tvö jafntefli. Það færir okkur þennan titil," sagði Eva Margrét Kristinsdóttir, leikmaður Gróttu, í kvöld eftir að liði fékk afhentan deildarmeistaratitilinn í Olís-deild kvenna. Þetta er í fyrsta sinn sem Grótta verður deildarmeistari en fyrr í vetur vann liðið Coca Cola bikarinn. 

„Við getum verið afar stoltar með árangurinn til þessa," sagði Eva Margrét en framundan er úrslitakeppni þar sem Grótta mætir Selfossi í átta liða úrslitum. „Við förum í hvern leik til þess að vinna. Þetta verða allt hörkuleikir og við hlökkum til."

Eva Margrét segir að leikmannahópurinn hjá Gróttu sé vel skipaður þar sem hver leikmaður þekkir sitt hlutverk.

Eva Margrét tók fram skóna á nýjan leik fyrir þessa keppnistíð. Hún segist ekki sjá eftir því. „Ég var búin að lofa því að koma mér í form áður en úrslitakeppnin hefst og vonast til þess að standa við það," sagði Eva Margrét glaðbeitt í kvöld eftir að hafa tekið við deildarbikarnum ásamt stöllum sínum fyrir framan stuðningsmenn sína í íþróttahúsinu á Seltjarnarnesi.

Nánar er rætt við Evu Margréti á meðfylgjandi myndskeiði. 

til baka