mán. 20. apr. 2015 18:23
Rúrik Gíslason í leik með íslenska landsliðinu.
Staða að opnast fyrir Rúrik

Kantmaður danska knattspyrnuliðsins FC Köbenhavn, Youssef Toutouh meiddist illa í leik liðsins gegn Ólafi Kristjánssyni og lærisveinum hans í Nordsjælland í dönsku úrvalsdeildinni í gær.

Inn fyrir hann kom íslenski landsliðsmaðurinn Rúrik Gíslason sem hefur verið að glíma við smávægileg meiðsli en Kaupmannahafnarliðið hafði betur 2:0.

Toutouh meiddist á hné í leiknum í gær og eftir að læknar félagsins skoðuðu hann í dag kom í ljós að hann þyrfti að fara í aðgerð. Afar líklegt er að hann spili ekki meira á tímabilinu.

Rúrik hefur fengið að spila minna hjá Kaupmannahafnarliðinu í ár og var síðast í byrjunarliði hinn 22. mars síðastliðinn. Ljóst er að meiðsli Toutouh þýða að Rúrik mun fá fleiri tækifæri á lokasprettinum í dönsku úrvalsdeildinni.

Rúrik er á sínu þriðja ári hjá Kaupmannahafnarfélaginu en með því leikur einnig Björn Bergmann Sigurðarson.

til baka