mán. 20. apr. 2015 20:51
Elísabet Einarsdóttir slær boltann í leiknum í kvöld en Miglena Apostolova og Fjóla Rut Svavarsdóttir eru til varnar.
Afturelding jafnaði metin

Afturelding hefur jafnað metin gegn HK, 1:1, í einvíginu um Íslandsmeistaratitil kvenna í blaki en Afturelding vann 3:1-sigur í öðrum leik liðanna í Kópavogi í kvöld.

Afturelding, sem tapaði óvænt fyrsta leiknum á laugardag, vann fyrstu hrinu 25:15. HK svaraði með 25:15-sigri í næstu hrinu en svo vann Afturelding 25:12 og 25:20.

Það var vel við hæfi að Zaharina Filipova skoraði lokastig leiksins en hún var besti maður vallarins og skoraði samtals 20 stig fyrir Aftureldingu. Auður Anna Jónsdóttir og Fjóla Rut Svavarsdóttir skoruðu 9 stig hvor. 

Stigahæst í liði HK var Elísabet Einarsdóttir með 13 stig. Laufey Björk Sigmundsdóttir og Natalía Ravva komu næstar þar à eftir með 11 stig hvor.

til baka