fim. 21. maí 2015 18:11
Eyjólfur Héðinsson getur fagnað með félögum sínum í kvöld en hann hefur ekkert getað leikið á tímabilinu vegna meiðsla.
Midtjylland meistari í fyrsta sinn

Midtjylland varð í dag Danmerkurmeistari í knattspyrnu í fyrsta sinn í sögu félagsins, þrátt fyrir að enn séu þrjár umferðir til stefnu.

Midtjylland tryggði sér titilinn með markalausu jafntefli á útivelli gegn Vestsjælland, en þar með hefur liðið 10 stiga forskot á næsta lið sem er FC Köbenhavn, þegar aðeins 9 stig eru í pottinum.

Eyjólfur Héðinsson hefur ekkert getað leikið með Midtjylland vegna langvinnra meiðsla og á því varð engin breyting í dag.

Midtjylland hafði tvívegis náð 2. sæti í deildinni, árin 2007 og 2008, en aldrei fagnað titlinum enda félagið stofnað rétt fyrir aldamót eftir sameiningu Ikast FS og Herning Fremad.

Eggert Gunnþór Jónsson lék allan leikinn fyrir Vestsjælland í dag en Frederik Schram var á varamannabekknum.

Theódór Elmar Bjarnason lék allan leikinn fyrir Randers sem tapaði 1:0 fyrir Hobro á heimavelli. Ögmundur Kristinsson sat á bekknum. Randers er í 4. sæti með 45 stig, nú aðeins þremur stigum á undan Hobro.

til baka