fim. 21. maí 2015 19:30
Sara Björk Gunnarsdóttir.
Risasigur Söru - Glódís lagði upp

Sara Björk Gunnarsdóttir og stöllur hennar í meistaraliði Rosengård tóku Íslendingaliðið Kristianstad í karphúsið í kvöld í 7. umferð sænsku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu.

Sara lék að vanda allan leikinn fyrir Rosengård sem vann 7:0-sigur. Hún lagði upp eitt markanna. Elísa Viðarsdóttir lék í vörn Kristianstad og Margrét Lára Viðarsdóttir lék fyrstu 65 mínúturnar fyrir liðið, sem leikur undir stjórn Elísabetar Gunnarsdóttur. Kristianstad er eftir sem áður í 5. sæti deildarinnar með 12 stig en Rosengård er með fimm stiga forskot á toppnum, með 21 stig.

Eskilstuna, lið Glódísar Perlu Viggósdóttur, heldur áfram að gera góða hluti en það vann 2:1-útisigur á Örebro í kvöld. Glódís lagði upp sigurmarkið. Eskilstuna er í 3. sæti með 15 stig.

til baka