fim. 21. maí 2015 20:35
Baldur Sigurðsson í leik með KR síðasta sumar.
Baldur sneri aftur í dýrmætum sigri

Lærisveinar Ólafs Kristjánssonar í Nordsjælland töpuðu í kvöld gegn Bröndby, 3:1, í 30. umferð dönsku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu.

Þetta var fjórða tap Nordsjælland í röð og liðið er komið í 8. sæti með 38 stig þegar þrjár umferðir eru eftir. Liðið er þó aðeins fjórum stigum frá 5. sætinu, svo dæmi sé tekið.

Guðmundur Þórarinsson var eini Íslendingurinn í byrjunarliði Nordsjælland í dag og hann lék allan leikinn. Adam Örn Arnarson kom inná sem varamaður á 66. mínútu en Rúnar Alex Rúnarsson og Guðjón Baldvinsson sátu á bekknum. Hólmbert Aron Friðjónsson var ekki með Bröndby sem er í 3. sæti deildarinnar.

Baldur Sigurðsson og félagar í SönderjyskE fóru langt með að tryggja sæti sitt í deildinni þegar þeir unnu Esbjerg á útivelli, 3:2. SönderjyskE komst þar með upp fyrir Esbjerg og er í 9. sæti af 12 liðum með 36 stig, sjö stigum frá falli og tveimur stigum á eftir Nordsjælland. Baldur lék allan leikinn en þetta var fyrsti byrjunarliðsleikur hans frá því í febrúar, eða eftir að hann jafnaði sig af meiðslum. Hann lék síðustu fimm mínúturnar gegn Randers í síðasta leik.

til baka